Söngflokkur Eiríks Árna (1976-78)

Söngflokkur Eiríks Árna spratt fram á sjónarsviðið fyrir jólin 1976 þegar út kom plata með söngflokknum á vegum hljómplötuútgáfunnar Júdasar.

Ekki liggur fyrir hvenær Söngflokkur Eiríks Árna var stofnaður en um var að ræða hóp 23 söngvara sem sungu undir stjórn söngkennarans og myndlistamannsins Eiríks Árna Sigtryggssonar en hann var um þær mundir einnig stjórnandi karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði. Söngflokkurinn söng ekki ólíkt því sem Silfurkórinn gerði fáeinum árum síðar en Eiríkur Árni útsetti raddirnar og hljóðfæraleikinn sjálfur.

Platan bar titilinn Söngvar um ástina og hafði að geyma tíu lög, flest erlend (m.a. bítlalagið Michelle (Smáblóm)) með íslenskum textum. Þess má geta að sjálfur Vilhjálmur Vilhjálmsson söng einsöng í einu laganna (Allir eru að tala um mig) en hann vildi sjálfur ekki að það kæmi fram á plötuumslaginu, á móti gerði söngflokkurinn Vilhjálmi þann greiða að vera í hlutverki áheyrenda og hluti af stemmingunni í laginu Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin sem kom út á plötu hans, Hana nú árið 1977. Umslag plötunnar prýddi málverk eftir stjórnandann en hún hlaut varla nema þokkalega dóma.

Söngflokkur Eiríks Árna kom eitthvað fram opinberlega um það leyti sem platan kom út, og einnig haustið 1977 en svo virðist sem hann hafi fljótlega lagt upp laupana eftir það.

Efni á plötum