
Söngkvartett ML
Innan Menntaskólans á Laugarvatni störfuðu söngkvartettar stóran hluta sjöunda áratugar síðustu aldar og hefur Glatkistan upplýsingar um nokkra slíka.
Sá fyrsti var starfandi um 1960 og hann skipuðu þeir Gestur Steinþórsson fyrsti tenór, Sigurður Rúnar Símonarson annar tenór, Þórhallur Hróðmarsson fyrsti bassi og Sigurjón Jónsson annar bassi. Ingimar Eydal annaðist undirleik og æfði kvartettinn. Næsti söngkvartett var líklega starfandi á árunum 1963-65 og voru meðlimir hans þeir Jens Jensson fyrsti bassi, Jens Þórisson annar bassi, Skúli Magnússon annar tenór og Gestur Steinþórsson fyrsti tenór. Ári síðar birtist kvartettinn á nýjan leik en mikið breyttur, Jens Þórisson var einn eftir frá síðasta skólaári en í stað hinna þriggja voru Sveinn Ingvarsson fyrsti tenór, Vignir Georgsson annar tenór og Sigurður Jakobsson fyrsti bassi. Kristján Sigurjónsson var undirleikari kvartettsins bæði skólaárin.
Næsta skólaár (1965-66) var kvartettinn skipaður sömu meðlimum en þá hafði Kristján undirleikari tekið við öðrum bassa í stað Jens, Bjarni Jónatansson gerðist hins vegar undirleikari kvartettsins. Þann sama vetur var annar söngkvartett stofnaður innan skólans með nokkuð yngri söngmönnum sem útskrifuðust árið vorið 1968, það voru þeir Kristján Valur Ingólfsson fyrsti tenór, Þorvaldur Nóason annar tenór, Þorvaldur Örn Árnason fyrsti bassi og Örn Lýðsson annar bassi sem skipuðu þann hóp en hann starfaði svo fram á vorið 1968. Bjarni Jónatansson var undirleikari og stjórnandi þess kvartetts.














































