
Söngsveitin Drangey
Söngsveitin Drangey var eins konar afsprengi Skagfirsku söngsveitarinnar en Drangey var kór eldra söngfólks starfandi innan Skagfirðingafélagsins í Reykjavík.
Skagfirska söngsveitin hafði verið stofnuð innan Skagfirðingafélagsins árið 1970 og hafði Snæbjörg Snæbjarnardóttir verið stjórnandi kórsins frá upphafi um miðjan níunda áratuginn þegar nýr stjórnandi, Björgvin Þ. Valdimarsson tók við kórnum. Kórinn hafði þá skapað sér heilmikið nafn í íslensku kóraflórunni en tími var kominn á endurnýjun innan hans, þar voru raddir af báðum kynjum sem voru farnar að eldast en höfðu áhuga á að syngja áfram – því var brugðið á það ráð að stofna nýjan kór sem hefði að geyma þetta eldra söngfólk, kór sem fyrst og fremst hefði að markmiði að vera syngjandi félagsskapur fremur en að hann hefði einhver háleit markmið. Nýi kórinn hlaut nafnið Söngsveitin Drangey (einnig nefndur Söngfélagið Drangey) og var stofnaður sumarið 1985, svo fór að Björgvin tók að sér kórstjórnina og stjórnaði honum til ársins 1991 en þá tók Snæbjörg við og var þá í raun komin með gamla kórinn sinn þótt hann héti öðru nafni á þessum tímapunkti.
Söngsveitin Drangey starfaði í um tvo áratugi og varð annað og meira en syngjandi félagsskapur því hann varð virkur og virtur kór þótt meðalaldur kórmeðlimanna væri örlítið hærri en annars staðar. Kórinn söng mikið á tónleikum ásamt Skagfirsku söngsveitinni en einnig hélt hann sjálfstæða tónleika og söng með öðrum kórum, vortónleikar voru fastur liður í dagskrá kórsins og hann söng einnig oft á Sæluviku Skagfirðinga en einnig fór Drangey í að minnsta kosti eina söngferð til útlanda.
Söngsveitin Drangey gaf út sextán laga plötu árið 2001 en hún bar nafnið Söngurinn um lífið og tilveruna, kórinn starfaði ekki lengi eftir það og virðist hafa hætt störfum veturinn 2004-05.














































