
Söngtríóið Þrír háir tónar
Söngtríóið Þrír háir tónar hafði í raun starfað í um tvö ár þegar það kom fram á sjónarsviðið en það hafði þá áður gengið undir nafninu Rím-tríóið, þegar til stóð að gefa út plötu með þeim félögum var nafninu breytt í Þrjá háa tóna en meðlimir tríósins voru þeir Arnmundur Bachman gítarleikari, Friðrik Guðni Þórleifsson bassaleikari og Örn Gústafsson gítarleikari – þremenningarnir sungu allir.
Þrír háir tónar komu fyrst fram opinberlega undir því nafni í janúar 1968 en platan kom út um vorið á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri og var fjögurra laga, hún hafði verið hljóðrituð haustið á undan í Ríkisútvarpinu. Á skífunni var að finna erlend lög við ljóð Friðriks Guðna og Jóhannesar úr Kötlum en þegar gagnrýnandi Tímans fann plötunni flest allt til foráttu þóttu textarnir hins vegar bera af öðrum textum. Eitt laganna var Freight train sem þarna var undir titlinum Siglum áfram.
Þeir félagar störfuðu fram á árið 1969 undir þessu nafni en þá fóru þeir hver í sína áttina, þremenningarnir áttu þó eftir að starfa saman í Eddukórnum sem Friðrik Guðni stofnaði árið 1970.














































