Afmælisbörn 13. júlí 2016

Sigurður Johnny

Sigurður Johnny

Að þessu sinni eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Stórsöngvarinn Sigurður Johnny Þórðarson (Siggi Johnny) er sjötíu og sex ára í dag. Siggi var upp á sitt besta á blómaskeiði rokksins á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, söng þá með ýmsum sveitum eins og hljómsveitum Svavars Gests, Björns R. Einarssonar og José Riba, auk KK-sextett og ýmsum öðrum. Siggi lagði sönginn til hliðar að mestu þegar Bítlarnir komu til sögunnar en kom inn sterkur síðar á sýningar sem haldar voru rokkinu til heiðurs á Broadway og Hótel Íslandi.

María Björk Sverrisdóttir söngkona, söngkennari, útgefandi og margt fleira, er fimmtíu og þriggja ára. María Björk lærði bæði djass- og klassískan söng og hefur sungið inn á fjölmargar plötur, m.a. undir aukasjálfinu Aría. Hún hefur þó að mestu helgað sig tónlist fyrir börn, stofnaði á sínum tíma Söngskóla Maríu Bjarkar þar sem hún kenndi börnum söng ásamt Sigríði Beinteinsdóttur, og gaf út sem Söngvaborg. Hún uppgötvaði m.a. Jóhönnu Guðrúnu í því samhengi og var umboðskona hennar um tíma. María Björk hefur einnig komið sterk inn sem lagahöfundur í Eurovision og Sæluviku Skagfirðinga hin síðustu ár.

Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir ein Nylon / Charlies söngsystra  er þrjátíu og tveggja ára gömul í dag. Flestir muna eftir Nylon ævintýrinu en sveitin var stofnuð vorið 2004, þær fluttust síðar til Bretlands og síðar Bandaríkjanna undir nafninu The Charlies, en þá hafði fækkað í hópnum. The Charlies hætti störfum á síðasta ári.

Eyfellingurinn Jón Sigurðsson, oft nefndur Jón í bankanum, hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 1992. Jón (f. 1925) var kunnur laga- en einkum þó textahöfundur og samdi texta við lög eins og Ég er kominn heim, Allt á floti, Einsi kaldi úr Eyjunum, Sagan af Nínu og Geira, Úti í Hamborg og Komdu í kvöld, svo fáein dæmi séu tekin en sagt er að eftir Jón liggi um tvö hundruð textar. Jón var ennfremur liðtækur hljóðfæraleikari og lék með ýmsum hljómsveitum á árum áður s.s. Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Óskars Cortes og Hljómsveit Karls Jónatanssonar.