Samkór Fáskrúðsfjarðar (1968-97)

Samkór Fáskrúðsfjarðar 1997

Að minnsta kosti í þrígang hafa verið starfandi söngfélög á Fáskrúðsfirði undir nafninu Samkór Fáskrúðsfjarðar en umfjöllunum um þá er hér steypt saman.

Fyrsti Samkór Fáskrúðsfjarðar var að öllum líkindum stofnaður haustið 1968 og starfaði hann um þriggja til fjögurra ára skeið og að líkindum allan tímann undir stjórn Steingríms Sigfússonar organista og skólastjóra tónlistarskólans í þorpinu. Kórinn kom eitthvað fram á tónleikum og öðrum samkomum og starfaði til ársins 1971.

Svo virðist sem ekki hafi verið starfræktur blandaður kór næstu árin á Fáskrúðsfirði (fyrir utan kirkjukórinn) en haustið 1981 var Samkór Fáskrúðsfjarðar hinn annar stofnaður og starfaði hann um veturinn hið minnsta undir stjórn Kjartans Ólafssonar, þessi kór hélt samsöng um vorið en hvorki liggur fyrir hvort um frekara tónleikahald var að ræða né hvort hann starfaði lengur en þennan eina vetur.

Árið 1997 var starfræktur Samkór Fáskrúðsfjarðar hinn þriðji og enn vantar upplýsingar um hversu lengi sá kór starfaði en stjórnandi þessa kórs var Eyjólfur Ólafsson. Líklegt er að meðlimir kórsins (sem voru um tuttugu talsins) hafi einnig verið í Samkór Suðurfjarða sem var samstarfsverkefni söngfólks á Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og Stöðvarfjarðar sem hafði þá nýlega verið stofnaður. Samkór Fáskrúðsfjarðar hinn þriðji hélt vortónleika árið 1997 og var því að öllum líkindum starfandi veturinn á undan, kórinn söng einnig á bæjarhátíðinni Frönskum dögum það sama sumar.