Söngfélagið Hekla [4] [félagsskapur] (1934-)

Söngfélagið Hekla er samband norðlenskra karlakóra, stofnað haustið 1934 og starfar líklega enn í dag að nafninu til en SÍK (Samband íslenskra karlakóra) hefur að mestu tekið við hlutverki þess.

Söngfélagið Hekla var stofnað í minningu Magnúsar Einarssonar organista og söngstjóra á Akureyri og var einnig stofnaðu minningarsjóður í nafni hans, Magnús hafði einmitt stjórnað Söngfélaginu Heklu hinu fyrsta – karlakór sem starfaði á Akureyri í aldarbyrjun og m.a. farið í söngferð til útlanda (Noregs) fyrstur kóra hérlendis. Hið nýja kórasamband erfði frá þeim kór forláta fána sem Söngfélagið Hekla hafði fengið að gjöf frá Norðmönnum eftir frægðarförina.

Stofnkórar sambandsins voru fjórir talsins, Geysir (Akureyri), Þrymur (Húsavík), Karlakór Mývetninga og Karlakór Reykdæla en fleiri karlakórar áttu síðar eftir að bætast í hópinn s.s. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Karlakórinn Vísir (Siglufirði), Karlakór Akureyrar, Karlakórinn Heimir í Skagafirði, Karlakór Ólafsfjarðar o.fl. Söngmót voru haldin framan af með reglubundnum hætti og var iðulega vel mætt á þær samkomur, þangað mættu stundum nokkur hundruð söngmenn hvaðanæva að af norðanverðu landinu.

Á söngmóti sem haldið var árið 1948 voru gerðar einhverjar upptökur af söng kóranna á vegum Útvarpsins en þær þóttu fremur slakar og líklega hafa þær ekki varðveist, hins vegar voru síðar gerðar plötuupptökur með söng níu kóra innan sambandsins á vegum plötuútgáfunnar Fálkans á plötunni Söngfélagið Hekla: Raddir að norðan (Songs of Iceland, volume 2 sem kom út í tilefni af þrjátíu ára afmæli Heklu. Þar sungu flestir kóranna tvö lög en þar er einnig að finna lagið Heklusöngur, lag sem sérstaklega var samið fyrir kórasambandið og allir kórarnir syngja það saman á plötunni undir stjórn Áskels Jónssonar.

Söngfélagið Hekla, samband norðlenskra karlakóra er sem fyrr segir líkast til enn starfandi.

Efni á plötum