Sönghópurinn Sólarmegin (1990-2001)

Sönghópurinn Sólarmegin

Saga Sönghópsins Sólarmegin á Akranesi spannaði yfir áratug og á þeim tíma sem hann starfaði hélt hann fjölda tónleika og gaf út eina plötu.

Sönghópurinn Sólarmegin var stofnaður í upphafi árs 1990 af Ragnheiði Ólafsdóttur sem jafnframt varð fyrsti stjórnandi hópsins. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu kórinn í upphafi eða hversu margir voru þá í honum en hann kom fyrst fram opinberlega á söngskemmtun um vorið 1990.

Framan af var Sönghópurinn Sólarmegin ekki áberandi í tónleikahaldi en það var svo árið 1992 sem meira fór að kveða að honum, þá flutti hópurinn m.a. lag sem samið var í tilefni 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar á hátíðahöldum tengdu því. Þá voru í Sólarmegin þau Ragna Kristmundsdóttir sópran, Gyða Bentsdóttir alt, Jensína Valdimarsdóttir alt, Halldór Hallgrímsson tenór, Pétur Óðinsson tenór, Guðmundur Jóhannsson bassi, Kristján Elís Jónasson bassi, Lars H. Andersen bassi og stjórnandinn Ragnheiður Ólafsdóttir sópran. Um þetta leyti var sönghópurinn farinn að syngja all oft opinberlega og þá einnig á höfuðborgarsvæðinu og víðar á suðvesturhorni landsins, síðar sungu þau einnig á Norðurlandi. Söngprógrammið var fjölbreytt og sungu þau allt tíð lög frá ýmsum tímum og áttum.

Sönghópurinn Sólarmegin 1994

Einhverjar breytingar urðu á mannaskipan sönghópsins, þannig kom til dæmis gamli Dúmbó söngvarinn Sigursteinn Hákonarson inn í hópinn sem og Anna Snæbjörnsdóttir, Tómas Kárason og Þórgunnur Stefánsdóttir síðar.

Ragnheiður hætti með kórinn sumarið 1993 þegar hún flutti af Skaganum og tók Guðmundur Jóhannsson þá við hlutverki söngstjórans. Undir hans stjórn starfaði kórinn allt til haustsins 2001 og fór eins og áður víða um land og reyndar einnig til Færeyja, auk þess sem sönghópurinn sendi frá sér plötuna Sólarmegin haustið 1996. Af því tilefni efndi sönghópurinn til útgáfutónleika í Grundaskóla á Akranesi og jafnframt söng hópurinn víða til að fylgja plötunni sem var tuttugu laga, eftir. Platan hafði verið hljóðrituð í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og Fella- og Hólakirkju undir stjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar.

Efni á plötum