Afmælisbörn 31. júlí 2023

Rut Ingólfsdóttir

Glatkistan hefur fjögur afmælisbörn á skrá sinni á þessum degi:

Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari er sjötíu og átta ára í dag. Rut nam sína tónlist fyrst hér heima en síðan í Svíþjóð og Belgíu. Hún hefur starfað sem konsertmeistari m.a. með Karmmersveit Reykjavíkur en hefur einnig starfað í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pólýfónkórnum og með Bachsveitinni í Skálholti svo dæmi séu tekin. Rut hefur einnig haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og í félagi með öðrum, auk þess að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Önnur Rut, söngkonan og kórstjórnandinn Rut (Little) Magnússon átti einnig afmæli þennan dag. Rut (1935-2010) kom upphaflega frá Englandi, giftist íslenskum tónlistarmanni (Jósef Magnússyni) og starfaði hér um árabil. Hún tók þátt í uppfærslum á ýmsum óperuverkum og öðrum þekktum verkum, stjórnaði t.a.m. Drengjakór Sjónvarpsins, Háskólakórnum, Liljukórnum og Hljómeyki svo nokkrir kórar séu nefndir, og kenndi jafnframt söng við Söngskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Eyfirðingurinn Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur er sextíu og fjögurra ára gamall í dag en hann söng og lék á bassa, hljómborð og saxófón með ýmsum hljómsveitum á því tímabili sem kennt er við pönkið. Meðal sveita sem hann lék með eru Taugadeildin, Snillingarnir, Zwingin‘ zombies, Þetta er bara kraftaverk, Anna og grafararnir/Handan grafar og Q4U.

Og að síðustu er hér nefndur saxófónleikarinn Eyjólfur Þorleifsson sem á stórafmæli en hann er fimmtugur á þessum degi. Auk þess að hafa gefið út sólóplötu og leikið á plötum fjölda annarra tónlistarmanna hefur Eyjólfur leikið með sveitum eins og Jagúar, Tríói Björns Thoroddsen, Tríói Jóns Rafnssonar og BonSom, jafnframt því að starfrækja eigin djassbönd.

Vissir þú að Steini spil (Þorsteinn Guðmundsson) var mest alla tíð handavinnukennari á Selfossi?