Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar [annað] (1928-)

Sigurður Birkis

Um margra áratuga skeið hefur söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar haft áhrif á söng- og tónlistarmál okkar Íslendinga, einkum framan af en segja má að embættið hafi m.a. mótað þá kirkjukórahefð sem hér hefur verið við lýði, og haft margs konar önnur áhrif.

Tildrög þess að til embættis söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar var stofnað voru þau að þegar alþingishátíðin sem haldin var sumarið 1930 stóð fyrir dyrum (til að fagna 1000 ára afmæli alþingis) þurfti að halda utan um og skipuleggja allan tónlistarflutning á hátíðinni, og var tónskáldið og Dómkirkjuorganistinn Sigfús Einarsson skipaður í starf söngmálastjóra árið 1928 til að hafa alla yfirumsjón yfir verkefninu, halda utan um allt sem varðaði söng og hljóðfæraslátt. Á alþingishátíðinni var mikið um tónlistaratriði og sérstaklega var kórsöngur áberandi þar en slíkur söngur var þá í raun enn á frumstigi hérlendis.

Að alþingishátíðinni lokinni var verkefni Sigfúsar lokið og því lá þessi staða hreinlega niðri um ríflega áratugar skeið. Það var því ekki fyrr en árið 1941 að embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar var stofnað með lögum frá alþingi og var tilgangurinn með stofnun þess að söngmálastjórinn skyldi hafa yfirumsjón með allri tónlist í kirkjum landsins, leiðbeina prestum og kórum um söng, stofna kirkjukóra og þess háttar.

Það var Sigurður Birkis sem var fyrstur til að gegna þessu lögvarða embætti og hann setti mikinn svip á það næstu áratugina. Hann fór um landið og raddþjálfaði og kenndi söngflokkum og kórum, hélt námskeið fyrir organista og leiðbeindi þeim um söngstjórn til að gera kirkjukórasöng sem fegurstan og bestan. Hann stofnaði jafnframt kirkjukóra víðs vegar um landið og líklega voru þeir hátt í tvö hundruð talsins, þá stofnaði hann einnig átján kirkjukórasambönd og svo Kirkjukórasamband Íslands þar sem hann gegndi fyrstur formennsku. Segja má að áhrifa Sigurðar Birkis gæti ennþá því hefð er fyrir slíku kirkjukórastarfi í flestum sóknum landsins og víðast hvar hafa kórar verið starfandi samfleytt síðan á dögum Sigurðar, hann stofnaði einnig Söngskóla Þjóðkirkjunnar sem síðar var breytt í Tónskóla Þjóðkirkjunnar en hefð varð fyrir því að söngmálastjórar gegndu embætti skólastjóra þar.

Haukur Guðlaugsson

Sigurður Birkis lést á síðasta degi ársins 1960 og nýr söngmálastjóri var skipaður vorið 1961, það var dr. Robert Abraham (Róbert A. Ottósson) sem hélt því starfi ótrauður áfram sem Sigurður hafði mótað, í tíð Róberts var Skálholtskórinn stofnaður en hann var söngmálastjóri til æviloka 1974. Næstur í röð söngmálastjóra var Haukur Guðlaugsson og hann hélt áfram starfi fyrirrennara sinna meðal annars með námskeiðahaldi en einnig jókst útgáfustarfsemi (nótna) í hans tíð – en jafnframt kom út kassetta sem bar heitið Kóræfingin sem hafði að geyma raddæfingar úr bók eftir Carl Eberhardt, Guðrún Tómasdóttir og Halldór Vilhelmsson sungu þessar æfingar. Þess má jafnframt geta að Glúmur Gylfason gegndi embætti söngmálastjóra tímabundið í afleysingum fyrir Hauk. Í tíð Hauks var embættið fært undir kirkjumálasjóð og heyrði ekki lengur undir ríkið heldur undir biskup.

Eftir að Haukur hætti störfum sökum aldurs árið 2001 varð starf söngmálastjóra óljósara, þannig var Haukur titlaður áfram söngmálastjóri þrátt fyrir að vera hættur störfum en Kristinn Örn Kristinsson sem tók við starfi skólastjóra Tónskóla Þjóðkirkjunnar var líklega aldrei titlaður söngmálastjóri. Eftir nokkurra ára óvissu um embættið var Hörður Áskelsson loks ráðinn í stöðuna haustið 2005 en þá hafði hún verið tekin niður í hálfa stöðu, Hörður gegndi stöðunni til 2011 en aftur kemur óvissutímabil um nokkurra ára skeið þar sem óljóst er hvort eða hver hafði starfstitilinn söngmálastjóri. Margrét Bóasdóttir hefur hins vegar gegnt stöðunni um nokkurra ára skeið núna fyrst kvenna, líklega frá 2015. Þá um leið virðist starfstitlinum hafa verið breytt í verkefnastjóri kirkjutónlistar þótt vissulega sé titilinn söngmálastjóri einnig ennþá notað.

Efni á plötum