
Sigurjón Birgir Sigurðsson
Fjögur tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Skáldið Sigurjón Birgir Sigurðsson eða bara Sjón er sextíu og eins árs gamall í dag. Fyrir utan að hafa slegið í gegn sem Johnny Triumph ásamt Sykurmolunum með lagið Luftgítar hefur Sjón samið fjölda texta sem komið hafa út á plötum. Hann hefur einnig gefið út plötuna Kanildúfur ásamt Baldri J. Baldurssyni og starfað með ýmsum tónlistartengdum hópum og hljómsveitum s.s. Níund, The Human seeds og Fan Houtens Kókó, og svo sveit sem hét því undarlega nafni Reið kona í austurbænum . eða ?.
Annað skáld (og tónlistarmaður) á afmæli í dag, það er Sveinbjörn I. Baldvinsson en hann er sextíu og sex ára í dag. Sveinbjörn hefur fyrst og fremst komið að tónlist sem ljóða- og textahöfundur en hann var áður fyrr einnig gítarleikari í nokkrum hljómsveitum eins og Nýja kompaníinu, Spöðum, Bláa bandinu, Diabolus in musica, Sextett og Ljóðfélaginu en síðast talda sveitin gaf á sínum tíma út plötuna Stjörnur í skónum sem vakti mikla athygli.
Rapparinn Kristinn Helgi Sævarsson sem er öllu þekktari undir nafninu Diddi Fel fagnar fjörutíu og þriggja ára afmæli á þessum degi. Kristinn Helgi hefur gefið út nokkrar plötur undir nafninu Diddi Fel en einnig undir nafninu Slim, hann var auk þess virkur í rappsamfélaginu í kringum aldamótin og starfaði þá með sveitum eins og Forgotten lores og Bounce brothers.
Sigríður Maggý Magnúsdóttir (Sigga Maggý) söngkona átti einnig afmæli á þessum degi en hún lést árið 2009. Sigga Maggý var fædd 1934, hún var gift harmonikkuleikaranum Ásgeiri Sverrissyni og söng lengi með gömludansasveit hans, Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar, á öldurhúsum höfuðborgarinnar. Ein fjögurra laga plata kom út með þeim en einnig söng Sigga Maggý bakraddir inn á nokkrar plötur sem SG-hljómplötur gáfu út á sínum tíma.
Vissir þú að úrslitakvöld Músíktilrauna 1983 fór fram á Kjarvalsstöðum?














































