Sveinbjörn I. Baldvinsson (1957-)

Sveinbjörn I. Baldvinsson

Sveinbjörn I. Baldvinsson er öllu þekktari sem rithöfundur en tónlistarmaður en hann hefur þó komið að tónlist sem laga- og textahöfundur auk þess að starfa með hljómsveitum.

Sveinbjörn Ingvi Baldvinsson fæddist í Reykjavík 1957 og fór hefðbundna skólagöngu, ekki liggur fyrir hvort hann lærði í tónlistarskóla en hann nam þó eitthvað af Gunnari H. Jónssyni á gítar. Þegar hann var í Menntaskólanum við Tjörnina starfaði hann með skólahljómsveit sem yfirleitt gekk undir nafninu Sextettinn en að námi loknu kom hann fram á sjónarsviðið sem ljóðskáld og fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1976. Snemma árs 1978 flutti hann við þriðja mann dagskrá í tali og tónum undir yfirskriftinni Heimurinn heima, sem fjallaði um heiminn séðum með augum barnsins. Þegar fjórði meðlimurinn hafði bæst í hópinn sendi hópurinn frá sér plötu um haustið undir nafninu Ljóðfélagið en platan hlaut nafnið Stjörnur í skónum og samdi Sveinbjörn bæði lögin og textana á henni. Stjörnur í skónum hlaut góðar viðtökur og lögin Lagið um það sem er bannað og Lagið um það sem ég vil (Þegar ég verð stór) náðu töluverðum vinsældum, einkum fyrrnefnda lagið og hefur það síðan komið út í nokkrum útgáfum og öðlast sígildi. Platan var endurútgefin á geisladiski af Máli og menningu árið 1999 og þá ásamt bók með ljóðverkinu og myndskreytingum Önnu V. Gunnarsdóttur en platan sjálf var svo aftur endurútgefin af Íslenskum tónum árið 2010.

Ljóðfélagið kom heilmikið fram í kjölfarið og flutti ljóðabálkinn og næstu árin lék Sveinbjörn með nokkrum hljómsveitum sem vöktu athygli, flestar þeirra voru með djasstengingu og ber þar hæst Nýja kompaníið (sem fyrst um sinn gekk undir nafninu Bláa bandið) og Diabolus in musica en hann var einnig viðloðandi hljómsveitina Melchior – allar þessar sveitir sendu frá sér plötur og voru nokkuð í sviðsljósinu, og voru að einhverjum tímapunkti starfandi í Kaupmannahöfn þar sem Sveinbjörn var við nám í bókmenntafræði. Hann lék á gítar með öllum þessum hljómsveitum og sá einnig eitthvað um söng.

Að námi loknu hóf Sveinbjörn að starfa við fjölmiðla, bæði við menningarþáttinn Gluggann í Ríkissjónvarpinu en einnig sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu þar sem hann ritaði bæði um bókmenntir og tónlist. Hann starfaði eitthvað áfram með Nýja kompaníinu og einnig með djasssveitinni Tískuljónunum en um miðjan níunda áratuginn hafði hann að mestu snúið baki við tónlistina í bili, að minnsta kosti á yfirborðinu.

Gítarleikarinn Sveinbjörn I. Baldvinsson

Sveinbjörn fór til Los Angeles árið 1986 í nám í handritagerð og þar bjó hann næstu árin og einbeitti sér að skriftum, hann gaf út ljóðabækur, skrifaði leikrit og fékkst við þýðingar og skrifaði kvikmynda- og sjónvarpsþáttahandrit í auknum mæli en eftir að hann kom heim aftur sumarið 1991 starfaði hann m.a. sem dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkissjónvarpinu þar sem hann hætti reyndar eftir deilur við útvarpsráð árið 1996 en hann vildi þá hætta við þátttöku Íslendinga í Eurovision keppninni og nota fjármagnið í íslenska þáttagerð. Andstaða hans gegn Eurovision risti þó ekki dýpra en svo að hann var meðhöfundur að textunum að lögunum All out of luck sem Selma Björnsdóttir söng í keppninni 1999 og svo að Open your heart með Birgittu Haukdal. Og um það leyti kom Sveinbjörn nokkuð að textagerð aftur tengt tónlist, hann samdi t.a.m. texta fyrir Selmu á plötum hennar, texta við tónverkið Raddir eftir John Speight og einnig hafði Stefán S. Stefánsson gefið út plötu með textum eftir hann. Þá hafði hann aftur komið inn í tónlistina um tíma, hann var t.d. með þegar Diabolus in musica var endurvakin seint á öldinni og lék á sólóplötu Jóhönnu V. Þórhallsdóttur söngkonu sveitarinnar en starfaði svo einnig með Combói Jóhönnu síðar. Á nýrri öld gekk hann jafnframt til liðs við hljómsveitina Spaða og lék með þeirri sveit um tíma.

Sveinbjörn I. Baldvinsson hefur lítið komið að tónlist undanfarin ár af því er virðist en þess má þó geta að Ljóðfélagið kom saman árið 2017 í tilefni af því að heildarútgáfa ljóða og söngva hans – Lífdagar, kom þá út.

Efni á plötum