Afmælisbörn 6. september 2023

Sverrir Stormsker

Tvö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Sverrir Ólafsson (Sverrir Stormsker) fagnar stórafmæli í dag en hann er sextugur. Sverrir hefur í gegnum tíðina gefið út um tuttugu plötur og ljóðabækur en frægðarsól hans reis hvað hæst fyrir 1990, þá átti hann hvern stórsmellinn á fætur öðrum s.s. Horfðu á björtu hliðarnar, Þórður, Við erum við, Hildur, Búum til betri börn og Sókrates en síðast nefnda lagið var framlag Íslands til Eurovision keppninnar 1988, það lag söng hann ásamt Stefáni Hilmarssyni en það hefur verið eitt aðal einkenni Sverris að fá aðra söngvara með sér. Sverrir hefur alltaf verið umdeildur, einkum fyrir oft á tíðum klámfengna nálgun í textum sínum og þá hefur hann gengið undir nafninu Serðir monster. Lítið hefur farið fyrir honum hin síðari ár.

Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari hefði einnig átt afmæli í dag en hún lést árið 2022. Anna Guðný nam píanóleik hér heima og í Bretlandi og starfaði bæði á Íslandi og erlendis. Hún lék oft einleik á tónleikum m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Íslensku hljómsveitinni svo dæmi séu nefnd en píanóleik hennar má jafnframt heyra á fjölda platna sem komið hafa út, bæði í hennar eigin nafni sem og í félagi við aðra.

Vissir þú að það var á plötu með Svavari Lárussyni sem í fyrsta sinn heyrðist í Hammond orgeli á íslenskri plötu?