Hljómsveit Arthurs Rosebery (1934-35)

Erfitt er að afla upplýsinga um hljómsveit (hljómsveitir) sem starfaði á Hótel Borg árið 1934 og 35 en hún var kennd við breska píanóleikarann Arthur Rosebery sem kom hingað til lands í tvígang og stjórnaði danshljómsveit á Borginni. Hljómsveitir sem léku á Hótel Borg á þeim tíma gengu yfirleitt undir nafninu Borgarbandið, þær voru iðulega undir stjórn erlendra tónlistarmanna og voru oftar en ekki að mestu eða öllu leyti skipaðar erlendum tónlistarmönnum, sem olli nokkurri úlfúð meðal íslenskra kollega þeirra enda þóttu þeir taka atvinnu frá Íslendingunum..

Arthur Rosbery sem var kunnur tónlistarmaður í Bretlandi, kom í fyrra sinnið hér sumarið 1934 og virðast tveir aðrir tónlistarmenn hafa verið með honum í för, þeir Thomas Alfred Draper og William John Pearce en Íslendingar hafa þá líklega skipað afganginn af sveitinni sem í þetta sinn var kvintett. Þessi útgáfa sveitar Rosebery starfaði fram í desember sama ár en þá fór hann af landi brott.

Rosebery kom aftur til Íslands fáeinum vikum síðar eða í janúar 1935 og þá var aftur sett á fót sveit sem bar nafn hans, Hljómsveit Arthurs Rosebery. Sú sveit var öllu stærri en sú fyrri, ellefu manna til að byrja með og átta manna nokkru síðar, jafnvel voru sveitir hans tvær um tíma. Tiltækar upplýsingar um þessa útgáfu/r sveitarinnar eru jafnvel enn minni en um þá fyrri en ætla má að liðsmenn hennar hafi að mestu verið erlendir. Rosebery bjó hér og starfaði fram í september 1934 en fór þá utan.

Hljómsveitir Roseberys vöktu yfirleitt mikla athygli meðal gesta Hótels Borgar og reyndar gerði hann sitt til að vekja athygli almennings á þeim með alls konar uppábrotum, t.a.m. stóð hann fyrir því sem kallaðist „Crazy night“ en það voru eins konar tónlistarkvöld blönduð grínatriðum – það féll þó ekki í góðan jarðveg hjá Íslendingunum og það mun hafa gert útslagið þegar liðsmenn sveitarinnar brutu fúlegg á höfuðum hvers annars, Íslendingar höfðu ekki húmor fyrir þeim húmor. Crazy nights voru auglýst með þeim hætti að hljómsveitin fór um bæinn (sem þá var reyndar ekki ýkja stór) á vörubílspalli og lék íklædd trúðabúningum.

Nokkrir Íslendingar léku með sveitum Roseberys svo kunnugt er, og hér eru nefndir þeir Sveinn Ólafsson fiðlu- og saxófónleikari og Bjarni Böðvarsson sem líklega lék á saxófón eða klarinettu með sveitinni – þá söng Kristján Kristjánsson einsöngvari með henni. Jafnframt gætu þeir Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari og Jóhannes Eggertsson trommuleikari hafa leikið með Rosebery og félögum.