Heart 2 heart (1992)

Sigurvegarar undankeppni Eurovision 1992

Heart 2 heart (Heart to heart) var hljómsveit sem sett var á fót í kringum framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni vorið 1992 en var í raun hljómsveitin Stjórnin eftir mannabreytingar.

Tildrög málsins voru þau að í undankeppni Eurovision söngvakeppninnar hér heima í febrúar 1992 bar lagið Nei eða já sigur úr býtum og skaut þar lögum eins og Karen og Mig dreymir aftur fyrir sig, sem lentu í öðru og þriðja sæti. Það voru Grétar Örvarsson og Friðrik Karlsson sem sömdu lagið við texta Stefáns Hilmarssonar en Sigríður Beinteinsdóttir (Sigga Beinteins) og Sigrún Eva Ármannsdóttir sungu lagið í keppninni ásamt Grétari við undirleik hljómsveitar keppninnar undir stjórn Jóns Ólafssonar.

Fljótlega fóru af stað raddir um að Stjórnin myndi flytja lagið í lokakeppninni sem haldin yrði í Málmey í Svíþjóð um vorið enda höfðu Sigga og Grétar notið velgengni í keppninni með Stjórninni tveimur árum áður þegar Eitt lag enn hafnaði í fjórða sæti keppninnar í Zagreb í Júgóslavíu. Sveitin var þá reyndar á nokkrum tímamótum og komin ákveðin þreyta eftir um tveggja ára samfellda keyrslu í kjölfar þeirrar velgengni og mikillar spilamennsku en sú leið var farin að Friðrik (á gítar), Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Halldór G. Hauksson trommuleikari gengu til liðs við Grétar og Siggu (og Sigrúnu Evu) svo úr varð hljómsveitin Heart 2 heart sem flestir töluðu um sem Stjórnina í dulargervi.

Heart 2 heart

Lagið Nei eða já var síðan endurunnið að hluta til, frumflutt um miðjan apríl þar sem hljómsveitin kom fram í fyrsta sinn opinberlega á Hótel Íslandi, og gefið út á þriggja laga smáskífu fyrir keppina þar sem titillagið var í tveimur útgáfum (einnig á ensku sem Time after time) auk lagsins Wherever I go. Nei eða já naut mikilla vinsælda hér heima eins og vænta mátti en einhverjar tilraunir voru gerðar með að koma því á framfæri erlendis með útgáfu smáskífunnar.

Laginu var spáð ágætu gengi framan af en þegar nær dró keppninni í Svíþjóð í maí lækkaði það gengi svo menn gerðu sér ekki miklar vonir um góðan árangur, úr rættist þó og lagið hafnaði í sjöunda sætinu þegar upp var staðið og menn gátu verið býsna sáttir við árangurinn enda var þetta næst besti árangur Íslands í keppninni til þessa.

Menn stöldruðu ekki lengi við Heart to heart nafnið, tilraunir til að gefa lagið út í Bretlandi gengu ekki eftir og strax fljótlega eftir keppnina í Svíþjóð var keyrt á heimamarkaðinn um sumarið með sama mannskap undir Stjórnarnafninu og í kjölfarið kom út breiðskífa með sveitinni sem m.a. hafði að geyma Eurovisionframlagið Nei eða já.

Efni á plötum