Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar (1971)

Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar er ein þeirra sveita sem nefnd hefur verið sem forveri Spilverks þjóðanna en sú sveit átti sér langan aðdraganda þar sem fjölmargar sveitir og tónlistarfólk kom við sögu. Ein þeirra sveita var Hassansmjör sem þeir Ragnar Daníelsen, Valgeir Guðjónsson og Gylfi Kristinsson (allt upphaflega meðlimir Stuðmanna) skipuðu auk fiðluleikara að nafni Sesselja [?] og sellóleikara að nafni Sigga [?] – önnur heimild segir að Helga Þórarinsdóttir [lágfiðluleikari?] og Systa Einarsdóttir [?] hafi verið í sveitinni. Þegar Egill Ólafsson bættist í hópinn mun sveitin hafa breytt um nafn og kallaðist þá Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar en Árni sá sem sveitin var kennd við var trommuleikari hennar og hefur þá væntanlega komið inn á sama tíma og Egill. Þess má geta að Árni kom einnig lítillega við sögu Stuðmanna um miðjan áttunda áratuginn þegar enn var ekki komin föst skipan á þá sveit.

Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar mun einungis hafa komið fram opinberlega í eitt skipti, í október 1971.