
Hljómsveit Birgis Marinóssonar
Hljómsveit Birgis Marinóssonar á Akureyri var í raun þrjár eða fjórar hljómsveitir starfræktar á mismunandi tímum með mismunandi mannskap, sú fyrsta starfaði á sjöunda áratugnum og segja má að hann hafi starfrækt hljómsveit á hverjum áratug fram að aldamótum með góðum hléum þess á milli.
Fyrsta hljómsveit Birgis starfaði á árunum 1961 til 64 en hún var stofnuð haustið 1961 upp úr skólahljómsveit sem Birgir hafði verið meðlimur í í Samvinnuskólanum á Bifröst í Borgarfirði, þessi sveit var skipuð þeim Rafni Sveinssyni trommuleikara, Pálma Stefánssyni harmonikku-, klarinettu- og bassaleikara, Gunnari Tryggvasyni gítarleikara og svo Birgi Marinóssyni sem lék á víbrafón og gítar. Um tíma var söngkona með sveitinni sem bar nafnið Saga [G. Jónsdóttir?] en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hana.
Sveitin spilaði mestmegnis fyrir norðan, til að mynda á héraðsmótum og öðrum almennum dansleikjum í Eyjafirði t.d. í Freyvangi, Laugarborg og Árskógi en hún lék einnig um tíma á Hótel KEA, og var reyndar mjög virk á þessum tíma. Þessi fyrsta hljómsveit Birgis Marinóssonar hætti störfum vorið 1964.
Ríflega áratugur leið þar til Birgir kom næst fram með hljómsveit, sú sveit mun hafa starfað á árunum 1975 til 79 en ekki liggja fyrir neinar frekari upplýsingar um þá sveit, hvort hún var t.d. skipuð fyrri meðlimum sveitarinnar að einhverju leyti. Þessi sveit var mestmegnis í vetrarbransanum, þ.e. í árshátíða- og þorrablótaspilamennsku.

Hljómsveit Birgis 1992
Enn liðu nokkur ár milli hljómsveita Birgis, sú þriðja leit dagsins ljós haustið 1987 og starfaði um fimm ára skeið á árunum 1987 til 92. Hún var framan af eitthvað auglýst undir nafninu Hljómsveit Birgis Marinóssonar og Dolli en engar upplýsingar er að finna um þennan Dolla, undir lokin (1992) voru auk Birgis sem þarna lék á gítar þeir Ásmundur Kjartansson bassaleikari, Stefán Kjartansson harmonikkuleikari, Guðmundur Kristjánsson trommuleikari og Friðrik Bjarnason gítarleikari.
Síðasta útgáfa sveitarinnar ef hægt er að orða það svo, starfaði svo árið 1998 og virðist hafa verið skammlíf. Ekki liggur fyrir hvort um var að ræða sömu sveit og hafði starfað á árunum 1987 til 92 eða hvort um allt annan mannskap var að ræða. Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.














































