Afmælisbörn 30. janúar 2024

Ingvi Þór Kormáksson

Fjórir tónlistarmenn eru skráðir með afmæli á þessum degi:

Ingvi Þór Kormáksson bókasafnsfræðingur og tónlistarmaður er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Hann hefur gefið út fjölmargar sólóplötur og auk þess tekið þátt í Eurovision undankeppnum og öðrum tónlistarkeppnum, jafnvel unnið til verðlauna erlendis í slíkum keppnum. Ingvi Þór lék með fjölmörgum hljómsveitum á árum áður, t.a.m. Experiment, Falcon, Goðgá, Án orma og Hljómsveit Birgis Gunnlaugsson svo fáeinar séu nefndar hér.

Þórður (Hreinn) Högnason kontrabassaleikari er sextíu og eins árs gamall í dag, hann hefur mestmegnis leikið á plötum annarra listamanna s.s. Megasar, Móeiðar Júníusdóttur, Ómars Guðjónssonar, Péturs Östlund og Rúnars Júlíussonar en verið einnig starfandi í ýmsum djassböndum. Þekktastur er Þórður þó líklega fyrir framlag sitt með Tríói Guðmundar Ingólfssonar á plötunni Gling gló sem er söluhæsta platan frá upphafi á Íslandi.

Sigfús Einarsson tónskáld (1877-1939) hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi, hann var einnig kórstjórnandi og söngvari, stýrði Dómkirkjukórnum og Þingvallakórnum sem settur var á fót í tilefni alþingishátíðarinnar 1930, hann var einnig söngmálastjóri um tíma. Sigfús var faðir Elsu Sigfúss söngkonu.

Elísabet (Markan) Einarsdóttir (1897-1985) var einnig fædd á þessum degi. Hún var söngkona, systir Maríu, Einars og Sigurðar Markan sem öll voru óperusöngvarar en ólíkt systkinum sínum bjó hún alla tíð hér heima. Fáeinar upptökur með söng hennar eru varðveittar í Ríkisútvarpinu en söng hennar má heyra á plötunni Síðasta lag fyrir fréttir (1993).

Vissir þú að Stefán Jónsson í Lúdó sextett hefur sungið inn á plötu með Sniglabandinu?