Helga Jónsdóttir (1955-)

Helga Jónsdóttir 1972

Tónlistarkonan Helga Jónsdóttir í Vestmannaeyjum hefur komið víða við í tónlistinni, stjórnað kórum, sungið í kórum og inn á plötur auk þess að semja lög og texta svo dæmi séu nefnd. Hún hefur verið áberandi í þeim geira tónlistarinnar sem flokkast undir trúartónlist.

Helga Jónsdóttir er fædd (1955) og uppalin í Vestmannaeyjum og kynntist tónlist fyrst í skátastarfinu í Eyjum og á þeim árum lék hún á gítar og stofnaði söngtríó, síðar var hún einnig í kristilegu starfi og var m.a. hluti af félagsskap sem bar heitið Ungt fólk með hlutverk en sá hópur gaf út kassettuna Syngið Drottni nýjan söng árið 1978. Eiginmaður hennar Arnór Hermannsson var í þeim félagsskap einnig og saman hafa þau starfað meira og minna í tónlistinni síðan.

Helga hóf að semja lög og texta sem margir voru í þessum sama kristilega anda, en mörg þeirra hafa komið út á plötum í gegnum tíðina. Hér má nefna plötuna Opið bréf (1981) þar sem þau hjónin sungu í kristilegum söngkvintett innan Betel safnaðarins, árið 1987 kom svo út kassettan Játning þar sem þau hjónin sungu saman kristilega tónlist og 1994 kom enn ein kassettan Ég þekki Jesú sem einnig hafði að geyma lög hennar og texta, þá hafa lög og textar eftir hana komið út á plötum t.d. með Barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju og á plötum með kristilegri tónlist s.s. Enn er von. Þess má svo geta að lög og textar eftir hana hafa komið út á nótum í nótnaheftum erlendis.

Helga á umslagi plötunnar Opið bréf

Þau Helga og Arnór hafa verið búsett í Vestmannaeyjum og staðið þar fyrir ýmsum menningartengdum viðburðum bæði innan Hvítasunnukirkjunnar og utan hennar, þau starfræktu m.a. Vinabandið um árabil og svo Hippabandið til fjölda ára en Helga var jafnframt lengi vel framkvæmdastjóri Hippahátíðarinnar svokölluðu lengi vel, þá voru þau í hljómsveitinni Mandal sem gaf út plötuna Fagnið nú jóla fögru nátt: Sálmar eftir séra Jón Þorsteinsson í Vestmannaeyjum en á þeirri plötu er einnig að finna lög eftir Helgu. Þau hjónin hafa ennfremur komið mikið fram saman sem söngdúett.

Árið 1995 stofnaði Helga barnakórinn Litla lærisveina innan Landakirkju en hún stjórnaði þeim kór um skeið og árið 1998 kom út plata með honum sem bar nafnið Litlir lærisveinar Landakirkju með gleðifréttir: Lög og textar Helga Jónsdóttir. Þá plötu vann Helga í samstarfi við Sigurð Rúnar Jónsson (Didda fiðlu) sem hvatti hana til að nema sig frekar í tónlistinn sem og hún gerði, fór þá í tónfræði- og söngnám. Helga hefur jafnframt sungið í Kirkjukór Landakirkju og Samkór Vestmannaeyja og komið að tónlistarstarfinu í Vestmannaeyjum með margvíslegum öðrum hætti.

Efni á plötum