Afmælisbörn 20. febrúar 2024

Einar S. Ólafsson

Afmælisbörn dagsins eru sex talsins á þessum degi:

Ólöf Kolbrún Harðardóttir söngkona er sjötíu og fimm ára gömul í dag. Hún nam söng við Tónlistarkóla Kópavogs og síðar í Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki og þegar hún kom heim að námi loknu hóf hún að kenna söng auk þess að syngja, bæði opinberlega og á plötum. Hún hefur ætíð verið viðloðandi Kór Langholtskirkju þar sem Jón Stefánsson eiginmaður hennar stýrði kórnum um árabil en þau voru upphaflega saman í Hryntríóinu ung að árum.

Kristján Viðar Haraldsson (Viddi Greifi) tónlistarmaður, borðtennisþjálfari og heilari er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi. Viddi hefur verið söngvari og hljómborðsleikari Greifanna frá Húsavík síðan sveitin sigraði Músíktilraunir Tónabæjar árið 1986 en áður gekk sveitin undir nafninu Special treatment.

Einar S. Ólafsson er sextíu og eins árs gamall í dag. Hans verður alltaf minnst fyrir framlag sitt, Þú vilt ganga þinn veg, sem hann söng barn að aldri. Einar var lítt viðloðandi tónlist eftir það, kom þó eitthvað við sögu hljómsveitanna Pass og Trípólí en hefur fengist við allt aðra hluti í seinni tíð.

Kristinn Snær Agnarsson trommuleikari er fjörutíu og sjö ára í dag. Kristinn Snær er meðal þekktustu trommuleikara landsins, hefur leikið inn á ógrynni platna s.s. hjá Bubba Morthens, Láru Rúnars og Rúnari Júl. en hefur auk þess starfað með mörgum þekktum og óþekktum hljómsveitum, hér má t.d. nefna sveitir eins og The Doors tribute band, Baggalút, Hjálma, Breiðbandið, Black coffee og Memfísmafíuna.

Söngkonan Vala Bára (Valgerður Bára Guðmundsdóttir) átti þennan afmælisdag en hún lést 2006. Vala Bára (f. 1936) sem kom upphaflega úr Bolungarvík vakti upphaflega athygli ásamt öðrum ungum dægurlagasöngvurum á skemmtunum í Austurbæjarbíói árið 1955 en söng síðar með hljómsveitum á dansstöðum borgarinnar sem flestar voru í gömlu dansa-geiranum, þetta voru sveitir eins og Hljómsveit Jose Riba, Hljómsveit Hrafns Pálssonar, Hallartríóið og Tríó Magnúsar Péturssonar

Að síðustu er hér nefndur Austurríkismaðurinn Josef Felzmann fiðluleikari (1910-76) sem einnig hefði átt afmæli á þessum degi. Hann kom hingað til lands á millistríðsárunum og starfaði hér til dauðadags, hann lék hérlendis með fjölmörgum danshljómsveitum en einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi. Josef spilaði aukinheldur inn á fjölda hljómplatna.

Vissir þú að Kammersveit Reykjavíkur hefur gefið út yfir þrjátíu plötur?