
Herramenn 1988
Hljómsveitin Herramenn frá Sauðárkróki sló raunverulega í gegn árið 1988 eftir góðan árangur í Músíktilraunum Tónabæjar en fylgdi þeim árangri ekki eftir með viðeigandi hætti, sveitin gerði alla tíð út frá heimabænum Sauðárkróki og það kann að vera skýringin á því að hún varð ekki stærra nafn í poppinu. Sveitin hefur aldrei hætt störfum en kemur saman á tyllidögum og við önnur hátíðleg tækifæri.
Herramenn áttu sér töluvert langan aðdraganda því kjarni sveitarinnar hafði spilað saman allt frá árinu 1982 en það voru æskuvinir á Sauðárkróki sem fyrst kölluðu sig Bad boys en síðan Metan, undir Metan-nafninu höfðu þeir félagar lent í öðru sæti Músíktilraun vorið 1987 á eftir Stuðkompaníinu frá Akureyri. Þegar sveitin hafði gengið í gegnum einhverjar mannabreytingar í byrjun árs 1988 var tekið upp nýtt nafn – Herramenn, undir því nafni var sveitin aftur skráð í tilraunirnar og nú skyldi stefnt á sigur.
Meðlimir Herramanna í Músíktilraunum voru þeir Kristján Gíslason söngvari og hljómborðsleikari, Svavar Sigurðsson gítarleikari, Birkir Guðmundsson hljómborðsleikari, Árni Þór Þorbjörnsson bassaleikari og Karl Jónsson trommuleikari. Sveitin komst í úrslit keppninnar rétt eins og árið á undan og hafnaði í annað skiptið í öðru sætinu, nú á eftir annarri norðlenskri sveit – Jójó frá Skagaströnd.
Þessi árangur sveitarinnar, annað sætið tvö ár í röð varð meðlimum hennar nokkur vonbrigði en varð þó til þess að útgáfufyrirtækið Steinar sem hugði á safnplötuútgáfu um sumarið með sumarsmellum ákvað að Herramenn fengju tvö lög á plötunni rétt eins og sigurvegararnir í Jójó, að auki voru tvö önnur lög með sveitinni á kassettuútgáfu plötunnar sem hafði fengið nafnið Bongóblíða. Það er skemmst frá því að segja að lögin tvö, Nótt hjá þér og Í útvarpi urðu bæði feikivinsæl og komst reyndar fyrrnefnda lagið alla leið í annað sæti vinsældarlista Rásar 2 sem þá var vinsælasta útvarpsefni landsins. Þessi árangur er allgóður sé litið til keppinautanna á listanum, þarna voru t.d. Sálin með Kanínuna, Greifarnir með Hraðlestina, Bubbi með Foxtrott og Bjarni Ara með Það stendur ekki á mér. Þess má geta að saxófónleikarinn Einar Bragi Bragason leikur sólóið í Nótt hjá þér og reyndar einnig í öðru aukalaganna – Baðferðinni, á kassettu-útgáfunni en hitt lagið bar heitið Landslagið, þau lög náðu ekki eyrum hlustenda enda voru mun færri sem keyptu kassettur heldur en vínylplötur á þeim tíma.

Herramann
Herramönnum tókst ekki að fylgja þessum vinsældum almennilega eftir því Karl trommuleikari sveitarinnar hafði slitið krossbönd og rifið liðþófa í hné svo hann gekk úr skaftinu og þurfti því að finna annan trymbil til að leysa hann af hólmi og reyndar hafði sveitin þurft að notast við trommuheila við upptökurnar vegna þessa, fyrst mun einn ungur og efnilegur hafa verið prófaður en hann var líklega of ungur til að leika á almennum dansleikjum svo Kristján Baldvinsson kom loks síðsumars inn í sveitina sem trommuleikari og þá var loksins hægt að keyra á fullt á dansleikjum.
Tvö ný lög með sveitinni voru hljóðrituð um haustið og þau komu svo út á annarri safnplötu sem kom út fyrir jólin 1988 og bar nafnið Frostlög, og er klárlega ein af vinsælustu safnplötum sem gefin hefur verið út hér á landi en plöturnar tvær Bongóblíða og Frostlög höfðu eingöngu að geyma íslenska tónlist. Nýju lögin tvö urðu einnig mjög vinsæl, Enginn og Segðu mér, og ekkert benti til annars en að Herramenn myndu feta sömu braut og Greifarnir og Stuðkompaníið sem áður höfðu sigrað Músíktilraunir, og Sálin hans Jóns míns, Nýdönsk og Todmobile sem einnig voru að koma fram sterkar fram á sjónarsviðið á þessum safnplötum. Herramenn sögðu t.a.m. frá því í blaðaviðtali að stefnt væri á plötu sumarið á eftir enda var sveitin nú búin að senda frá sér fjóra smelli.
En hlutirnir breyttust af einhverri ástæðu, framan af nýju ári, 1989 lék sveitin töluvert í félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við ferð á norræna ungmennahátíð sem haldin var í Álaborg í Danmörku um sumar en þangað fór sveitin og lék við góðan orðstír, ekkert lag kom hins vegar út með sveitinni á safnplötu um sumarið en aðrar sveitir sem Herramenn voru að keppa við um hylli landans komu sterkar inn á safnplötunni Bandalög. Þetta varð til þess að Herramenn sátu eftir og e.t.v. hafði það eitthvað að segja að sveitin gerði út frá Sauðárkróki í stað þess að flytjast á höfuðborgarsvæðið eins og t.d. Greifarnir höfðu gert.
Svo fór að sveitin hætti störfum haustið 1989 þegar þeir Kristján söngvari og Karl trommari stofnuðu hljómsveitina Styrmingu ásamt tveimur meðlimum úr hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, og átti sú sveit eftir að starfa í um eitt og hálft ár og senda frá sér tvö lög á safnplötu. Innan hinnar nýju sveitar var Hörður G. Ólafsson sem árið 1990 sigraði undankeppni Eurovision hér heima með laginu Eitt lag enn, sem Stjórnin flutti eftirminnilega í Zagreb í Júgóslavíu og hafnaði í fjórða sæti.

Herramenn í Danmörku 1989
Einhverjar mannabreytingar urðu í Styrmingu og í ársbyrjun 1991 þegar meðlimir þeirrar sveitar voru að megninu til orðnir þeir sömu og skipuðu Herramenn áður, var ákveðið að taka upp Herramanna-nafnið á nýjan leik en nú var sveitin gjarnan kynnt sem hljómsveit Harðar G. Ólafssonar þar sem nafn hans var nú orðið vel þekkt. Meðlimir sveitarinnar voru þarna þeir Hörður sem lék á bassa og söng eitthvað líka, Kristján, Karl, Birkir og Svavar. Hörður samdi einnig lag í undankeppni Eurovision 1991 sem Kristján söng ásamt fleirum en einnig söng Kristján annað lag í keppninni þannig að hann var þarna orðinn nokkuð þekktur söngvari. Herramenn gáfu síðan lag Harðar – Í dag, út á safnplötunni Bandalög 4 sem kom út um sumarið en það vakti ekki mikla athygli.
Sveitin lék þetta sumar mestmegnis fyrir norðan enda má segja að Skagafjörðurinn hafi verið aðalvígi sveitarinnar en einnig léku þeir félagar töluvert í Dölunum og á Vestfjörðum og Ströndum næstu árin. Um haustið flutti sveitin enn eitt lag Harðar í lagakeppninni Landslaginu en það lag söng Ruth Reginalds með Kristjáni, lagið bar nafnið Enginn eins og þú en vakti fremur litla athygli.
Herramenn voru næstu árin mestmegnis í sömu sporum, léku að mestu leyti á norðan- og vestanverðu landinu, voru t.d. í Bjarkalundi um verslunarmannahelgar að minnsta kosti í tvígang en léku mun minna sunnan heiða, sveitin var þó á litla pallinum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 1993 en það sumar áttu þeir félagar lag, Það falla regndropar, á safnplötunni Lagasafnið 3. Um það leyti hætti Karl trommuleikari í sveitinni og sæti hans tók Kristján Kristjánsson, fleiri breytingar urður síðan á sveitinni þegar Hlynur Höskuldsson kom inn í hana í stað Svavars. Þar með voru þeir Kristján söngvari og Birkir hljómborðsleikari einir eftir af upprunalegu Herramönnunum. Ekki er allt skýrt og ljóst í tengslum við skipan Herramanna, þannig eru heimildir um að Arnar Kjartansson hafi verið trommuleikari sveitarinnar árið 1993 en líklegt er að hann leikið skamma hríð með henni áður en Kristján Kristjánsson tók við. Einnig hafa Haukur Freyr Reynisson hljómborðsleikari og Kristinn Kristjánsson bassaleikari verið nefndur í þessu samhengi en upplýsingar um það má gjarnan senda Glatkistunni.

Herramenn
Herramenn höfðu nóg að gera í spilamennskunni en voru ekki áberandi og sendu ekki frá sér fleiri lög á plötum, sveitin kom stöku sinnum suður til að leika á dansleikjum en fóru hins vegar í nokkur skipti erlendis til að leika á þorrablótum s.s. í Svíþjóð og Þýskalandi. Hörður bassaleikari hætti í sveitinni árið 1996 en ekki liggur fyrir hver tók sæti hans, sveitin spilaði eitthvað áfram en lék svo á „lokaballi“ sumarið 1997 þegar hún lék á afmælishátíð Sauðárkróks-bæjar, og þar með var settur eins konar lokapunktur á eftir sögu sveitarinnar.
Sveitin var þó alls ekki hætt frekar en aðrar sveitir sem hætta, og hún hefur margsinnis síðan komið saman og leikið við hátíðleg tækifæri, m.a. á sjómannadagsböllum og Skagfirðingaböllum á höfuðborgarsvæðinu, og vorið 2023 hélt sveitin eins konar ferilstónleika í Miðgarði í Skagafirðinum þar sem gamla prógrammið var rifjað upp og meðal annars var þar leikið efni sem aldrei hafði komið fyrir heyrnir almennings, tónlist úr söngleik sem þeir höfðu unnið að á sínum tíma. Sú útgáfa sveitarinnar var skipuð gamla kjarnanum, Kristjáni söngvara, Árna Þór bassaleikara, Svavari gítarleikara, Birki hljómborðsleikara og Karli trommuleikara.
Herramenn frá Sauðárkróki eru því enn starfandi þótt líði e.t.v. lengra á milli gigga hjá sveitinni.














































