Hermann Stefánsson [1] (1904-83)

Hermann Stefánsson

Hermann Stefánsson var mun þekktari sem framámaður í íþróttakennslu og tengdum málum á Akureyri en sem tónlistarmaður, en hann söng oft einsöng á skemmtunum og tónleikum norðan heiða og víðar.

Hermann var fæddur á Grenivík snemma árs 1904 en fluttist til Akureyrar og bjó þar alla ævi síðan. Hann fór í íþróttakennaranám til Danmerkur sem þá þóttu tíðindi og má segja að hann hafi byggt upp íþróttastarfið á Akureyri og kynnt bæjarbúum fjölmargar nýjar íþróttagreinar en hann starfaði alla starfsævi sína sem íþróttakennari við Menntaskólann á Akureyri. Hann sinnti ýmsum félagstengdum störfum á vegum íþróttahreyfingarinnar, fór m.a. á nokkra ólympíuleika, var formaður Skíðasambands Íslands og kynnti blakíþróttina hérlendis, svo dæmi um störf hans séu nefnd – hann mun m.a. eiga heiðurinn af orðunum „blak“ og „hnit“.

Hermann var einnig kunnur söngmaður á Akureyri, hann tók virkan þátt í kórastarfinu þar í bæ, gekk snemma til liðs við karlakórinn Geysi (síðar Karlakór Akureyrar) og söng með honum í áratugi en einnig með Kantötukór Akureyrar og jafnvel fleiri kórum sem störfuðu fyrir norðan. Hann söng margsinnis einsöng með kórunum á tónleikum og skemmtunum og kom einnig oft fram sem sjálfstæður einsöngvari á skemmtunum allt fram eftir sjötta áratugnum en hann þótti hafa einkar góða tenórrödd. Tvær 78 snúninga plötur komu út árið 1933 þar sem heyra má einsöng Hermanns, önnur þeirra var með karlakórnum Geysi og hin með Kantötukór Akureyrar – einnig kom löngu síðar út breiðskífa með Karlakór Akureyrar þar sem hann var meðal einsöngvara. Þá samdi Hermann einnig ljóð en að minnsta kosti tveir textar eftir hann hafa komið út á plötu en þá er að finna á plötum Geysiskvartettsins á Akureyri.

Hermann Stefánsson

Sem kennari var Hermann jafnan virkur í félagslífi menntskælinganna, hann tók þátt í leiklistarlífinu með þeim og stjórnaði kór skólans um skeið. Hann var einnig virkur í félagslífi þeirra kóra sem hann starfaði með og var t.d. formaður karlakórsins Geysis lengi vel, þá var hann einnig um tíma formaður Heklu – sambands norðlenskra karlakóra.

Hermann lést árið 1983 en hann hafði þá átt við heilsubrest að stríða um áratuga skeið eftir að hafa fengið mænusótt um miðja öldina, sem hann jafnaði sig aldrei af en fyrir þann tíma hafði hann þótt mikill íþróttamaður sem iðkaði skíða- og sundíþróttirnar af miklum mætti.

Þess má geta að minningarsteinn um Hermann og Þórhildi Steingrímsdóttur eiginkonu hans var afhjúpaður við gamla íþróttahús MA á Akureyri árið 2006 en þau hjónin höfðu bæði starfað þar sem íþróttakennarar.

Efni á plötum