
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Í dag eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Dalvíkingurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari og eftirherma er þrjátíu og fimm ára gamall í dag. Eyþór er auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt til Eurovision söngkeppninnar en eins og alþjóð veit söng hann íslenska framlagið, Ég á líf, vorið 2013. Áður hafði hann vakið athygli í hæfileikakeppninni Bandinu hans Bubba á Stöð 2 árið 2008 og í söngkeppni framhaldsskólanna 2008. Eyþór hefur síðustu árin sungið með Atómskáldunum og Todmobile, og er söng hans að finna á nokkrum plötum sem komið hafa út hin síðustur ár.
Erlendur Svavarsson (Eddie Svavarsson) söngvari og trommuleikari er áttatíu og tveggja ára gamall í dag. Erlendur hóf feril sinn sem söngvari með sveitum eins og hljómsveitum Aage Lorange og Árna Ísleifs áður en hann gekk til liðs við Neo kvartettinn. Síðar gerðist hann trommuleikari með Pónik, Blúskompaníinu og fleiri sveitum. Erlendur hefur búið erlendis síðustu árin.
Þorgrímur Jónsson bassaleikari er fjörutíu og átta ára í dag. Þorgrímur er kunnur kontrabassaleikari úr djassgeiranum sem nam fræði sín hér heima og í Hollandi, hefur leikið með ógrynni djasssveita í gegnum tíðina – hér má nefna Jónsson & More, Skuggamyndir frá Býsans, Casino, JP3, BonSom, Carnival, Alto ást, B-sharp og Trúboðana sem örfá dæmi en hann hefur jafnframt leikið með óteljandi djasstríóum og -kvartettum kennda við hina og þessa. Þorgrímur hefur jafnframt gefið út sólóefni.
Sigríður Geirsdóttir (Sirrý Geirs) söngkona og fegurðardrottning átti afmæli á þessum degi en hún lést árið 2020. Sirrý (fædd 1938) var dægurlagasöngkona og söng m.a. með KK sextettnum, Hljómsveit Árna Elfar og Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar áður en hún þurfti að sinna skyldum sínum sem fegurðardrottning og bjó þá lengst af erlendis, en hún kom stöku sinnum heim og söng þá með hljómsveitum Árna Elfar og Ragnars Bjarnasonar.
Þá er hér að síðustu nefndur Skúli Einarsson (1955-2021) sem oftast var kenndur við Tannstaðabakka í Hrútafirði en hann átti þennan afmælisdag einnig. Skúli lék framan af á trommur með hljómsveitum bæði norðan heiða og sunnan, m.a. með Hljómsveit Gissurar Geirs, Hljómsveit Stefáns P. og Helfró en á seinni árum lék hann einnig á gítar og starfaði þá með sveitum eins og Lexíu, Húnabandinu, Dúett og SMS tríóinu auk þess að reka sveit í eigin nafni. Skúli nam jafnframt söng kominn á miðjan aldur og kom oft fram sem slíkur.
Vissir þú að Óli Palli á Rás 2 var í hljómsveitinni Þúsund og einni nótt árið 1989?














































