Sirrý Geirs (1938-2020)

Sirrý Geirs á forsíðu Fálkans

Sirrý Geirs verður alltaf fyrst og fremst þekktust fyrir að hafa orðið fegurðardrottning Íslands, hafnað svo í þriðja sæti Miss International og átt fyrirsætu- og leiklistarferil í Bandaríkjunum í kjölfarið, færri muna þó að hún var einnig dægurlagasöngkona og söng með nokkrum hljómsveitum áður en hún freistaði gæfunnar erlendis.

Guðrún Sigríður Geirsdóttir (Sirrý Geirs) fæddist í Reykjavík 1938 og bjó fyrstu sjö árin á Íslandi áður en hún fluttist til Svíþjóðar með fjölskyldu sinnig þar sem hún bjó til sextán ára aldur, þá kom hún heim og lauk stúdentsprófi við MR áður en hún hóf nám í ensku og sænsku við Háskóla Íslands.

Það var svo snemma sumars 1959 sem Sirrý tók þátt í fegurðarsamkeppni Íslands sem á þeim árum var haldin í Tívolíinu í Vatnsmýrinni en hún gerði sér lítið fyrir og sigraði þá keppni. Nýkrýnd fegurðardrottningin nýtti hins vegar sumarið til að syngja bæði með KK-sextettnum á dansleikjum víða um land og svo með Hljómsveit Árna Elfar í Röðli þar sem hún leysti Hauk Morthens af um tíma, Haukur kom svo aftur inn í sveitina um haustið og þau sungu bæði með henni fram að áramótum – m.a. komu þau þá fram í Kanasjónvarpinu. Sirrý söng einnig lítillega um haustið með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar í Silfurtunglinu.

Næsta vor (1960) þurfti Sirrý að standa við skuldbindingar sínar sem fylgdu sigrinum í fegurðarsamkeppninni, fór utan til Long beach í Bandaríkjunum til að keppa í keppninn um Miss International og hafnaði þar í þriðja sæti auk þess að vera kjörin ljósmyndafyrirsæta keppninnar. Í kjölfarið buðust henni ótal tækifæri við fyrirsætustörf og tengd verkefni auk leiks í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en hún hafði einmitt einnig verið við nám í Leiklistarskóla Ævars Kvaran hér heima og hafði áhuga á leiklist.

Sirrý Geirs

Hún bjó því og starfaði næstu árin erlendis undir nafninu Sirry Steffen, mest í Hollywood og New York en einnig í Asíu, og lék í ótal auglýsingum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum – en hún var fyrst íslenskra kvenna til að leika í Hollywood, dagblöðin hér heima fluttu stundum fréttir af henni en hún kom stöku sinnum heim í stuttar heimsóknir. Í einni slíkri heimsókn 1962 tók hún sig til og söng aftur með Hljómsveit Árna Elfar á Röðli, og svo aftur 1966 og 1969 þar sem hún söng í sjónvarpssal og með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu.

Sirrý fluttist alfarið heim til Íslands árið 1971 og bjó hér til dauðadags á höfuðborgarsvæðinu, Siglufirði og síðast Hveragerði, hún lauk BA-námi sínu í ensku og sænsku, og starfaði m.a. við kennslu. Hún söng lítillega með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar árið sem hún flutti heim en lagði sönginn svo að mestu á hilluna – söng reyndar um tíma með Pólýfónkórnum, þá lék hún í kvikmyndinni Okkar á milli í hita og þunga dagsins sem Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði (1982).

Sirrý talaði oft um Hollywood árin í blaða- og tímaritsviðtölum og einnig kom út samtalsbók (Litróf lífsins e. Önnu Kristine Magnúsdóttur) árið 2001 þar sem hún var meðal viðmælenda, þar talaði hún opinskátt um líf sitt en hún hafði orðið illilega fyrir barðinu á kjaftasögum hér heima og hafði það haft nokkur áhrif á hana.

Sirrý Geirs lést snemma árs 2020 á áttugasta og öðru aldursári.