Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur [2] (1975-79)

Árið 1975 kom Garðar Cortes fram með þá hugmynd að stofna sinfóníuhljómsveit áhugafólks en hann hafði þá fáeinum árum áður stofnað Söngskólann í Reykjavík og síðan Kór Söngskólans, og fannst vanta hljómsveit skipaða menntuðu tónlistarfólki sem hefði þó tónlistina ekki að atvinnu, sem gæti leikið með kórnum á tónleikum og óperusýningum án þess að mikill kostnaður fylgdi því.

Farið var á fullt í málið og strax um haustið 1975 hafði sveitin verið sett á laggirnar undir nafninu Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur en um miðja öldina hafði önnur sveit verið starfandi undir þessu nafni. Sveitin var skipuð menntuðu áhugafólki í tónlist en einnig var þar að finna fjölmarga tónlistarnemendur úr Tónlistarskólanum í Reykjavík, sem þannig öfluðu sér dýrmætrar reynslu í tónlistinni.

Sveitin lék á nokkrum tónleikum á næstu árum ásamt Kór Söngskólans, tók einnig þátt í stærri verkum m.a. í Laugardalshöllinni árið 1978 ásamt um 900 manna kór, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hljómsveit Tónlistarskólans, alls um 1000 manns. Einnig fór sveitin í nokkur skipti út fyrir höfuðborgarsvæðið og hélt tónleika á landsbyggðinni. Garðar Cortes stjórnaði hljómsveitinni sjálfur en einnig mun Brian Carlile hafa stjórnað henni í lokin þegar Garðar varð uppteknari af stofnun Íslensku óperunnar.

Starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Reykjavíkur lognaðist útaf árið 1979, að nokkru leyti vegna verkefna Garðars við hina nýju óperu en einnig þar sem slík hljómsveit þyrfti að vera atvinnumannasveit. Hljómsveit Íslensku óperunnar var því stofnuð í stað sveitarinnar, skipuð atvinnufólki en hluti gömlu sveitarinnar tók þó þátt í uppfærslunni á fyrsta stykki hinnar nýstofnuðu Íslensku óperu, Pagliacci. Kjarni hinnar aflögðu sveitar kom svo við sögu Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna sem stofnuð var nokkrum árum síðar.