Afmælisbörn 31. maí 2024

Jóhannes Eggertsson

Sjö tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu hjá Glatkistunni í dag:

Kjartan Valdemarsson píanó- og hljómborðsleikari er fimmtíu og sjö ára gamall í dag. Kjartan er fjölhæfur tónlistarmaður og hefur leikið á fjölda poppplatna allt frá árinu 1984 þegar fyrst heyrðist til hans á safnplötum, hann hefur verið í mörgum þekktum hljómsveitum eins og Todmobile en í seinni tíð mestmegnis starfað í djasstengdum tríóum og kvartettum.

Ingólfur Þórarinsson (Ingó Veðurguð) frá Selfossi er þrjátíu og átta ára gamall. Ingólfur sem bæði syngur, leikur á gítar og semur tónlist náði miklum vinsældum með hljómsveit sinni Veðurguðunum fyrir nokkru síðan en hefur á síðari árum starfað meira einn, bæði sem trúbador og við dagskrárgerð í sjónvarpið. Hann hefur gefið út nokkuð af sólóefni.

Ýtu-Viggó (Viggó Brynjólfsson) ýtustjóri og harmonikkuleikari (f. 1926) hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2021. Viggó sem var vestan af Ströndum, lék á sínum yngri árum á dansleikjum í heimabyggð og reyndar langt fram eftir aldri og sendi frá sér árið 2010 harmonikkuplötuna Í tónum, þá áttatíu og fjögurra ára gamall.

Loftur S. Loftsson tónlistarmaður er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Loftur hefur starfað með nokkrum hljómsveitum, leikið á bassa og sungið með sveitum eins og Shockmonkey, Dys, Dætrasonum, Hrauni, Sjáumst í sundi og 5tu herdeildinni en hefur einnig sungið inn á fáeinar plötur.

Magnús Jónsson óperusöngvari (f. 1928) átti þennan afmælisdag en hann lést 2002. Magnús sem einnig var þekktur millivegalengdahlaupari og keppti m.a. á Ólympíuleikum, nam söng hér heima, á Ítalíu og Svíþjóð en starfaði lengst í Danmörku sem óperusöngvari áður en hann kom heim til Íslands til starfa. Hann söng inn á nokkrar plötur hér heima og er söng hans að finna á mörgum safnplötum.

Einnig hefði Steinþór Gestsson alþingismaður frá Hæli í Hreppum átt afmæli í dag en hann lést 2005. Steinþór (f. 1913) var einn þeirra sem skipaði MA-kvartettinn á sínum tíma en kvartettinn hlaut landsfrægð fyrir söng sinn og gaf út fjöldann allan af 78 snúninga plötum á sjötta áratug síðustu aldar.

Að lokum er hér nefndur tónlistarmaðurinn Jóhannes Eggertsson (1915-2002) sem þekktastur var sem trommu- og sellóleikari en hann lék þó á fjölda annarra hljóðfæra. Jóhannes starfaði með hljómsveitum eins og Blue boys, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Borgarbandinu, Fjarkanum, Hljómsveit Árna Björnssonar og Hljómsveit Þóris Jónssonar svo aðeins nokkrar séu nefndar en hann lék jafnframt inn á fjölda útgefinna platna.

Vissir þú að árið 1983 starfaði þungarokkshljómsveit undir nafninu Hazk?