Afmælisbörn 4. júní 2024

Úlrik Ólason

Afmælisbörn dagsins á Glatkistunni í dag eru sjö talsins:

Jörundur (Arnar) Guðmundsson eftirherma og skemmtikraftur á sjötíu og sjö ára afmæli í dag. Jörundur fór mikinn í skemmtanabransanum einkum á áttunda og níunda áratug liðinnar aldar þar sem hann skemmti með eftirhermu- og skemmtiprógrammi sínu um land allt. Hann gaf ennfremur út plötu á sínum tíma, auk snældu ásamt Ladda. Jörundur hætti að mestu í eftirhermubransanum um 1990.

Þá er Úlfur Alexander Einarsson söngvari og gítarleikari Oyama þrjátíu og sjö ára gamall í dag. Úlfur Alexander hefur einnig starfað í hljómsveitum eins og Swords of chaos, The Fist fokkers, Gangly og Útidúr svo einhverjar séu hér nefndar.

Jón Hlöðver Áskelsson tónlistarkennari og margt fleira er sjötíu og níu ára gamall en hann hefur staðið framarlega í norðlensku tónlistarlífi. Hann söng á sínum yngri árum með Barnakór Akureyrar, Djúpárdrengjum og Raddbandinu, stjórnaði síðar Karlakór Akureyrar og kenndi við Tónlistarskólann á Akureyri auk þess að vera skólastjóri skólans um tíma. Eftir að hafa lent í veikindum sneri Jón Hlöðver sér meira að tónsmíðum en eftir hann liggur fjöldinn allur af sönglögum.

Snorri Gunnarsson gítarleikari fagnar í dag fimmtíu og þriggja ára afmæli sínu. Snorri hefur starfað og gefið út efni undir nafninu The Sweet parade og leikið með nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina en hér má nefna sveitir eins og Soma, Fjöll, Slow mountains, Stolið og Glimmer, hann hefur jafnframt leikið inn á plötur með sumum þeirra.

Kristinn Hallsson bassabaritónsöngvari (1926-2007) átti líka afmæli á þessum degi en hann var einn ástsælasti óperu- og einsöngvari þjóðarinnar um árabil. Kristinn var músíkalskur og lærði á selló og píanó áður en hann hóf söng að einhverju marki. Hann þótti efnilegur sellóleikari en varð að hætta sellóleik samkvæmt læknisráði og sneri sér þá alveg að söngnum. Hann nam söng hér heima og í London og bauðst starf við Sadler‘s Wells óperuna í London en fékk ekki atvinnuleyfi, hann kom því heim og starfaði hér heima æ síðan. Hann söng í fjölmörgum þekktum óperuuppfærslum hér heima auk annarra söngstarfa.

Úlrik Ólason (fæddur 1952) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann var fjölhæfur í tónlistinni og kom víða við í henni. Hann stjórnaði fjölmörgum kórum og starfaði sem organisti og undirleikari víða um land, kenndi tónlist og var reyndar m.a. um tíma skólastjóri Tónlistarskólans á Húsavík. Einnig lék hann sem undirleikari á nokkrum plötur sem höfðu að geyma kóratónlist, auk þess að semja tónlist sjálfur. Úlrik lést árið 2008.

Og að síðustu er hér nefndur Vestmannaeyingurinn Guðjón Weihe (1945-2022). Guðjón samdi nokkra texta við þjóðhátíðarlög Vestmannaeyinga og urðu sum þeirra laga býsna þekkt, þekktast þeirra er vafalaust Þú veist hvað ég meina mær (í flutningi Skítamórals) en einnig má nefna lög eins og Ég meyjar á kvöldin kyssi sem Greifarnir fluttu, og Þjóðhátíð í Eyjum og Á þjóðhátíð sem bæði voru flutt af Geirmundi Valtýssyni.

Vissir þú að Hjördís Geirs söngkona er móðir Heru Bjarkar Þórhallsdóttur Eurovision fara?