Úlrik Ólason (1952-2008)

Úlrik Ólason

Úlrik Ólason var mikilvirtur kórstjórnandi og organisti, þekktastur líklegast fyrir störf sín fyrir Kristkirkju og Söngsveitina Fílharmóníu.

Úlrik fæddist á Hólmavík (1952) en ólst upp á Akranesi þar sem hann nam fyrst tónlistarfræði sín við tónlistarskólann hjá Hauki Guðlaugssyni, hann lærði á orgel við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við kirkjuakademíuna í Regensburg í Þýskalandi.

Þegar Úlrik kom heim úr námi í Þýskalandi kenndi hann tónlist við tónlistarskólann á Akranesi og síðan norður á Húsavík þar sem hann gerðist skólastjóri tónlistarskólans þar í bæ, annaðist einnig kórstjórn og organistastörf við Húsavíkurkirkju. Norðan heiða stjórnaði hann einnig kórum eins og Samkór Húsavíkur og Karlakórnum Hreimi.

Úlrik kom suður til Reykjavíkur 1987, fékkst við kennslu hér og þar við tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu, m.a. við Tónskóla Þjóðkirkjunnar auk þess sem hann stóð einnig fyrir stofnun eins slíks við Landakotsskóla. Hann varð organisti við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og við Kristskirkju (Landakotskirkju) auk þess sem hann stjórnaði um tíma Söngsveitinni Fílharmóníu og Kórs Kristskirkju.

Aukinheldur lék Úlrik á mörgum tónleikum sem undirleikari og inn á fjölmargar plötur sem slíkur, t.d. á plötum Árnesingakórsins í Reykjavík, Karlakórsins Hreims, Kórs Kristskirkju, Rangárbræðra og Sigríðar Björnsdóttur, svo nokkur dæmi séu hér nefnd. Hann stýrði ennfremur þremur kórum á plötu sem hafði að geyma Heilaga messu eftir Gunnar Þórðarson.

Hann nam einnig tónsmíðar í Austurríki í lok síðustu aldar, og samdi nokkuð af tónlist, sálma o.fl.

Úlrik lést vorið 2008 eftir skammvinn veikindi, þá á sextugs aldri. Tvennir minningartónleikar voru haldnir um hann að minnsta kosti.