
Hljómsveit Jack Quinet 1933
Húshljómsveitir voru fastur liður á Hótel Borg á upphafsáratugum þess og er þeim gerð skil í sér umfjöllun undir Hljómsveit Hótel Borgar (Borgarbandið). Ein þeirra sveita og kannski sú þekktasta starfaði undir stjórn Bretans Jack Quinet en frá opnun hótelsins 1930 og allt til heimsstyrjaldarinnar síðari voru hljómsveitirnar að miklu leyti skipaðar erlendum tónlistarmönnum.
Haustið 1933 kom breski fiðluleikarinn Jack Quinet hingað til lands í fyrsta sinn til að stýra hljómsveit Hótel Borgar en hann tók við hljómsveitarstjórn af Bjarna Böðvarssyni sem hafði þá leyst af meðan beðið var eftir Bretanum. Bjarni lék áfram með sveitinni um tíma en aðrir meðlimir sveitarinnar voru líkast til allir breskir – ekki liggja þó fyrir hverjir þeir voru en sveitin var skipuð átta hljóðfæraleikurum undir stjórn Quinet um veturinn 1933-34.
Vorið 1934 fór Jack Quinet af landi brott en kom aftur til Íslands vorið 1936 og staldraði þá mun lengur við. Litlar upplýsingar er að finna um meðlimi hljómsveitar hans þá utan þess að Connell Hall var trommuleikari hennar. Jack var reyndar ekki við stjórnvölinn veturinn 1937-38 en kom í þriðja sinn til landsins vorið 1938, þá hafði Íslendingum eitthvað fjölgað í sveitinni og þegar heimsstyrjöldin skall á með fullum þunga var hún eingöngu skipuð íslenskum tónlistarmönnum fyrir utan hljómsveitarstjórann. Sveinn Ólafsson saxófónleikari, Höskuldur Þórhallsson trompetleikari, Árni Björnsson píanóleikari, Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari og Þórir Jónsson fiðlu- og saxófónleikari voru þá í sveitinni en einnig hafði vestur-íslenski trompetleikari Páll Dalmann gert stuttan stans í henni árið 1938. Victor Urbancic var um tíma í sveitinni og það voru einnig Jóhannes Eggertsson bassaleikari (og síðar trommuleikari), Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari og Óskar Cortes fiðluleikari en þessi sveit var mest tíu manna – hér vantar þó frekari upplýsingar um hvernig hún var skipuð hverju sinni og hér vantar jafnframt fleiri nöfn.
Sveitin hafði mikið að gera og naut vinsælda í Reykjavík sem á styrjaldarárunum var smám saman að fá á sig alþjóðlegri blæ með komu breska hersins, og jafnframt fylgdu hernum ýmsir framandi straumar og stefnur í tónlist sem sveitin tileinkaði sér og bauð upp á – þess vegna kom sveit Quinet einnig nokkuð fram í Útvarpinu. Sveitin hlaut aukinheldur það verkefni að leika undir söng Hallbjargar Bjarnadóttur á tónleikum sem hún hélt í Gamla bíói, auk þess sem sveitin lék víðar utan Hótel Borgar.
Saga Hljómsveitar Jack Quinet hlaut þó nokkuð snöggan endi þegar hljómsveitarstjórinn sjálfur var handtekinn af breska hernum og sendur úr landi – ýmist er hann sagður hafa verið kvaddur í herinn eða hafa verið handtekinn fyrir liðhlaup en þar með lauk sögu hans hér á landi og Þórir Jónsson tók við hljómsveitarstjórninni – og um leið varð til fyrsta alíslenska dans- og djasshljómsveitin. Ekki liggur fyrir hver örlög Jack Quinet urðu.














































