
Ingvi Rafn Ingvason
Glatkistan hefur tvö tónlistartengd afmælisbörn á sinni skrá á þessum degi:
Ingvi Rafn Ingvason trommuleikari fagnar fimmtíu og fjögurra ára afmæli í dag. Ingvi Rafn hefur starfað og leikið með ótal hljómsveitum og eru Drykkir innbyrðis, Kókos, Bláa sveiflan, Slikk, Yfir strikið, Signia, Bylting, Hrífa, Tríó Björns Thoroddsen, Blues express og Blúsbræður aðeins hluti þeirra sveita. Hann hefur jafnframt sent frá sér frumsamið efni á plötu.
Fjölnir Stefánsson tónskáld og tónlistarfrömuður hefði átt afmæli þennan dag en hann lést árið 2011. Fjölnir (f. 1930) lærði á selló auk hljómfræði og tónsmíða hér heima áður en hann fór til London til framhaldsnáms í tónsmíðum. Þegar heim var komið kenndi hann við ýmsa tónlistarskóla áður en hann var skólastjóri Tónlistarskólans í Kópavogi en því starfi gegndi hann í á fjórða áratug, hann hlaut titilinn heiðurslistamaður Kópavogs 1994. Fjölnir sinnti aukinheldur ýmsum félagsmálum tónlistarmanna, var t.a.m. formaður stjórnar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, var í stjórn STEF og var meðal stofnenda Musica nova.
Vissir þú að það var enginn annar en Vilhjálmur Vilhjálmsson sem lék á bassa í upprunalegri útgáfu Vikivaka eftir Jón Múla Árnason?














































