
Hljómsveit Ólafs Gauks 1972
Gítarleikarinn Ólafur Gaukur Þórhallsson starfrækti hljómsveitir svo að segja samfleytt frá því um 1950 og allt til 1985 en þó þeim mun lengur séu allar hans sveitir með taldar. Hans fyrsta sveit var Tríó Ólafs Gauks sem er fjallað um í sér umfjöllun annars staðar á Glatkistunni en sú sveit hafði verið stofnuð 1948, hún starfaði með hléum allt til 1956 og lék inn á nokkrar plötur, um tíma starfaði tríóið samhliða sex manna sveit sem Ólafur stofnaði líklega 1954 og er efni þessarar umfjöllunar.
Litlar upplýsingar er að finna um þessa sex manna sveit, hún starfaði með einhverjum hléum og lék t.a.m. í Vetrargarðinum í Vatnsmýrinni árið 1954 og á Röðli ári síðar yfir sumartímann en það haust fór sveitin í balltúr um landsbyggðina með Hauk Morthens sem söngvara. Þá eru heimildir um að sveit Ólafs hafi leikið sumarið 1959 á Hótel Selfossi og var þá Sigurður Johnny söngvari hennar, og síðsumars það sama ár lék sveitin undir hjá Frankie Lymon í Austurbæjarbíó – Árni Elfar starfaði með hljómsveitinni á þeim tónleikum sem aukamaður en engar upplýsingar er að finna um aðra liðsmenn sveitarinnar nema auðvitað að Gaukurinn sjálfur var gítarleikari hennar.
Hljómsveit Ólafs Gauks lék nokkuð á árunum 1963 og 64, m.a. í Glaumbæ en þá var Svanhildur Jakobsdóttir orðin söngkona sveitarinnar og Árni Elfar virðist þá hafa verið fastur liðsmaður hennar, þau Ólafur og Svanhildur voru þarna nýgift.

Hljómsveit Ólafs Gauks
Haustið 1965 stofnaði Ólafur nýja sveit sem hann kallaði Sextett Ólafs Gauks og átti hún eftir að starfa til 1970 við miklar vinsældir og gekk reyndar undir því nafni eitthvað lengur – um þá sveit má lesa nánar hér en þegar Ólafur fækkaði í sveitinni haustið 1970 var nafni hennar breytt í Hljómsveit Ólafs Gauks en meðlimir hennar voru að mestu leyti hinir sömu, hjónin Ólafur Gaukur og Svanhildur, Carl Möller hljómborðsleikari, Alfreð Alfreðsson trommuleikari og Andrés Ingólfsson saxófónleikari en svo virðist sem sveitin hafi verið bassaleikaralaus um tíma.
Hljómsveitin var lengi viðloðandi Hótel Borg eða allt til ársins 1975 en síðar lék hún í Þórscafe og var í lausamennsku við árshátíðaskemmtanahald og viðlíka samkomur. Á sumrin fór sveitin með flokk skemmtikrafta um landsbyggðina til að skemmta dreifbýlingum, lengi vel undir slagorðinu Hér gala gaukar og síðar Húllumhæ en sveitin tók slíka sumartúra allt til ársins 1979 – og hafði þá lengi vel fasta viðveru í Galtalæk um verslunarmannahelgina. Jörundur Guðmundsson, Halli og Laddi, Karl Einarsson, Svala Nielsen og fleiri voru með í för og stundum voru erlendir skemmtikraftar á dagskránni, sumrin 1976 og 77 var t.a.m. nektardansmær í hópnum og tveimur árum síðar var enskt fjöllistatríó með þeim. Sveitin lék víða utan hefðbundins dansleikjahalds, m.a. töluvert á árshátíðum og fór t.a.m. í nokkur skipti erlendis til að leika fyrir Íslendingafélög erlendis, þá lék sveitin eitthvað í sjónvarpi og t.d. var hún í eitt skipti í Jólastundinni okkar.

Hljómsveitin árið 1974
Einhverjar breytingar urðu á skipan hljómsveitarinnar meðan hún starfaði, Pálmi Gunnarsson bassaleikari og Halldór Pálsson flautu- og saxófónleikari komu í hana 1972 en aðrir meðlimir voru þá Gaukurinn sjálfur, Svanhildur, Carl og Alfreð. Um haustið höfðu hins vegar Kristinn Sigmarsson og Erlendur Svavarsson leyst Pálma, Alfreð og Halldór af hólmi. Þorvaldur Halldórsson kom inn í sveitina sumarið 1973 sem bassaleikari en sveitin hafði þá verið bassaleikaralaus um tíma, Ágúst Atlason kom svo inn í sveitina um haustið í stað Þorvaldar og lék þá á bassa auk þess að syngja. Erlendur trommuleikari var þá að hætta og í hans stað kom Benedikt Pálsson. Þannig var sveitin líklega skipuð þar til sumarið 1976 en þá voru Ólafur Gaukur, Svanhildur, Benedikt, Magnús Einarsson og Rúnar Georgsson meðlimir sveitarinnar. Þeir Magnús og Rúnar stöldruðu stutt við og Helgi E. Kristjánsson kom inn í hana sem bassaleikari og þá voru þau aðeins fjögur í sveitinni, og líklega um nokkurn tíma.
Nokkrar plötur komu út með Hljómsveit Ólafs Gauks á fyrri hluta áttunda áratugarins, tvær smáskífur litu dagsins ljós í nafni Svanhildar og hljómsveitarinnar 1971 og 73 og á þeim var m.a. að finna lögin Þú ert minn súkkulaðiís og Ég hugsa til pabba, jafnframt komu út fjórar breiðskífur með Svanhildi þar sem sveitin lék undir söng hennar, sólóplatan Ég kann mér ekki læti (1972), jólaplatan Jólin jólin (1972) og barnaplöturnar Svanhildur syngur fyrir börnin (1974) og Allir krakkar (1975), allar þessar plötur komu út á vegum SG-hljómplatna nema sú síðast talda sem Ólafur gaf sjálfur út undir útgáfumerkinu Hljómskífan – plötuforlag.

Hljómsveit Ólafs Gauks og Jörundur Guðmundsson
Hljómsveit Ólafs Gauks virðist hafa verið í örlítilli pásu í kringum 1980 en birtist aftur í febrúar 1981 og lék þá töluvert minna á dansleikjum af því er virðist, að minnsta kosti var sveitin ekki áberandi í dagblaðaauglýsingum og má vera að hún hafi þá leikið meira á árshátíðum og einkasamkvæmum. Sveitin starfaði sem slík að minnsta kosti til ársins 1984 en ári síðar virðist djassinn svolítið hafa tekið yfir hjá Gauknum því sveitir í hans nafni eftir miðjan níunda áratuginn voru mestmegnis skipaðar djasstónlistarmönnum og léku þá á djasstengdum samkomum, þær sveitir voru oft í stærri kantinum eða allt upp í tíu manna. Í kringum 1990 var Anna Mjöll dóttir Ólafs farin að syngja með sveitinni en einnig lék sveitin á jólatengdum skemmtunum og dansleikjum enda höfðu þær mæðgur Anna Mjöll og Svanhildur sent frá sér jólaplötu um það leyti.
Ólafur starfrækti hljómsveit með reglulegum hætti allt til ársins 2002 að minnsta kosti en litlar sem engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu þá sveit eða sveitir með honum, það hefur að líkindum verið mjög misjafnt en oftast djasstengt enda var öll venjuleg ballspilamennska orðin utan radars hjá honum þá.














































