
Hljómsveit Ólafs Þórarinssonar
Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) starfrækti hljómsveit í eigin nafni vorið 1993 en þá var sett á svið sýning á Hótel Selfossi sem bar heitið Leikur að vonum, hún var byggð á tónlist Ólafs og var uppistaðan að einhverju leyti lög sem hann hafði samið fyrir hljómsveitina Mána. Sýningin gekk fyrir fullu húsi í nokkur skipti um vorið en þar kom reyndar fleira tónlistarfólk við sögu en hljómsveitin sem hér um ræðir.
Hljómsveit Ólafs Þórarinssonar var fjölskipuð – kjarni hennar kom úr hljómsveitinni Karma sem Ólafur starfrækti um sama leyti, en meðlimir hennar voru Gunnar Jónsson trommuleikari, Vignir Þór Stefánsson hljómborðsleikari, Hróbjartur Eyjólfsson bassaleikari, Þorsteinn Magnússon gítarleikari, Óskar Guðjónsson saxófónleikari og Stefán Hólmgeirsson slagverksleikari, sjálfur lék Ólafur á gítar og söng. Þrjár söngkonur komu jafnframt fram með sveitinni, Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir (dóttir Ólafs), Kristjana Stefánsdóttir og Bryndís Ólafsdóttir.
Tíu árum síðar (2003) var Labbi á ferð með sveit í eigin nafni en engar frekari upplýsingar er að finna um hana.














































