
Siggi Guðfinns
Sjö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar á þessum degi:
Ingibjörg Lárusdóttir söngkona, lögfræðingur, flugfreyja og trompetleikari er fimmtíu og fimm ára gömul í dag. Hún leikur reyndar á ýmis önnur hljóðfæri og hefur gefið út jólaplötu ásamt systrum sínum (Þórunni og Dísellu) en þær eru dætur Lárusar Sveinssonar trompetleikara.
Siggi Guðfinns eða Sigurður Kristinn Guðfinnsson á sextíu og tveggja ára afmæli í dag. Siggi Guðfinns starfaði hér fyrrum mest með hljómsveitum en hefur verið meira í hlutverki trúbadors hin síðari ár, hann hefur sent frá sér nokkrar plötur í eigin nafni og í félagi við aðra tónlistarmenn.
Þá á Halldór Sölvi Hrafnsson gítarleikari einnig afmæli á þessum degi en hann er fimmtíu og sex ára gamall. Halldór hefur leikið með hljómsveitum á borð við Soma, sem þekktust var fyrir lagið Grandi Vogar II, en hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Glimmer og Yesminis pestis.
Þá er það trommuleikarinn Björn Björnsson en hann er sjötíu og sjö ára gamall í dag. Björn kom víða við í tónlistinni en þekktustu hljómsveitir hans eru án nokkurs vafa Mannakorn og Pónik sem báðar sendu frá sér plötur og vinæl lög, meðal annarra sveita sem Björn hefur leikið með eru Blúskompaníið, Tónik, Uncle John‘s band, Hljómsveit Jakobs Ó. Jónssonar, Orion og Lísa.
Haukur Þór Valdimarsson fagnar í dag tuttugu og þriggja ára afmæli sínu en hann hefur komið víða við í tónlistinni þrátt fyrir ungan aldur, starfað sem gítarleikari og söngvari með rokksveitum á borð við Wintris, Forsmán og síðast en ekki síst Blóðmör en síðast talda sveitin sigraði Músíktilraunir 2019 og hefur vakið mikla athygli.
Mezzósópran söngkonan og kórstjórnandinn Hildigunnur Einarsdóttir er fjörutíu og tveggja ára á þessum degi. Hildigunnur sem nam söng hér heima, í Þýskalandi og Hollandi hefur komið fram sem einsöngvari við ótal tækifæri og með smærri og stærri hljómsveitum og syngur aukinheldur í Schola Cantorum og Kór Íslensku óperunnar.
Og að lokum er hér nefnd Gunnbjörg Óladóttir söngkona en hún er sextíu og eins árs gömul á þessum degi. Gunnbjörg var þekkt söngkona innan trúarlega tónlistargeirans, var öflug í starfi Samhjálpar og söng inn á nokkrar plötur á sínum tíma, Hún sendi meðal annars frá sér sólóplötuna Þú ert mér nær, árið 1986.
Vissir þú að Björgvin Halldórsson, Shady Owens og Magnús Þór Sigmundsson gáfu út smáskífu saman í Bretlandi undir nafninu Hot Ice?














































