
Hópreið lemúranna
Hljómsveitin eða tónlistarhópurinn Hópreið lemúranna var sett saman upphaflega fyrir einn viðburð, dagskrá í minningu Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar (1955-98) haustið 2008 en tíu ár voru þá liðin frá andláti hans og um sama leyti kom út heildarsafn ljóða hans – Óður eilífðar. Dagskráin fór fram í Iðnó og þar flutti Hópreið lemúranna ásamt Kór byltingarinnar og Rúnari Guðbrandssyni leikara tónverkið Veðraspána við samnefnt heimsósómaljóð eftir Þorgeir.
Ekki er alveg ljóst hverjir skipuðu Lemúrana en meðal þeirra voru Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson, Halldór Lárusson, Hörður Bragason, Kristinn H. Árnason, Einar Jónsson, Eiríkur Stephensen, Hjalti Gíslason, Birgir Bragason, Rúna K. Tetzschner og einhverjir fleiri en flestir liðsmenn sveitarinnar munu hafa starfað með hljómsveitinni Júpíters sem Þorgeir Rúnar hafði einnig verið í á sínum tíma. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hópinn eða um hljóðfæraskipan hans.
Aðeins hafði verið gert ráð fyrir þessari einu uppákomu með Hópreið lemúranna en svo virðist sem sveitin hafi komið aftur saman á vormánuðum 2010 og leikið á menningarhátíð í Grindavík, engar upplýsingar er hins vegar að finna um skipan hennar þá eða hvers konar tónlist var þá á ferðinni.














































