
Hafliði Jósteinsson
Fjögur tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu dagsins:
Fyrstan skal nefna Sigurð Björnsson óperusöngvara sem er níutíu og þriggja ára gamall í dag. Hann nam söng fyrst hér heima hjá Guðmundi Jónssyni, Kristni Hallssyni og fleirum en fór til framhaldsnáms í Þýskalandi, þar starfaði hann um árabil. Ein fjögurra laga plata með jólasálmum kom út hér heima með Sigurði um 1960. Söng hans má þó heyra á fleiri plötum s.s. með Einsöngvarakvartettnum sem hann söng með á sínum tíma.
Kópavogsbúinn Steinn Skaptason á sextíu og tveggja ára afmæli í dag en hann er einn af helstu poppfræðingum landsins, og mikill áhugamaður um plötusöfnun. Steinn er sonur Skapta Ólafssonar söngvara og hefur sjálfur verið í hljómsveitum. Þar má nefna sveitirnar Pig face, Áreitin, Nema lögreglan, Blóðtakt, Ys, Stífgrím, Videósílín og Stunu úr fornbókaverslun svo einungis fáeinar séu nefndar.
Þorsteinn Hannesson tenórsöngvari átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést árið 1999. Þorsteinn (f. 1917) sem var frá Siglufirði, lærði söng í London en starfaði víðs vegar um Evrópu að námi loknu. Hann kom heim til Íslands 1954 og sinnti hér ýmsum tónlistarlegum verkefnum, fékkst m.a. við kennslu, starfaði við tónlistardeild Ríkisútvarpsins og kom að ýmsum félagsstörfum í tónlistargeiranum. Söng Þorsteins má heyra á fjölmörgum plötum, m.a. safnplötu í útgáfuröðinni útvarpsperlur, á vegum Ríkisútvarpsins.
Hér er einnig nefndur Hafliði Jósteinsson (1941-2018) sem var virkur í tónlistarsamfélaginu á Húsavík um árabil sem söngvari og trommuleikari. Hafliði starfaði með fjölmörgum hljómsveitum og hér má nefna Víbra, Fimm, Húsavíkur-Hauka, Mánatríóið, Daggardropa, Hljómsveit Jóns Illugasonar og Danshljómsveit Húsavíkur.
Vissir þú að fjögur systkini voru í hljómsveitinni Ojba rasta?














































