Sigurður Björnsson [1] (1932-)

Sigurður Björnsson

Óperusöngvarinn Sigurður Björnsson er meðal þeirra kunnustu í sinni stétt, hann starfaði lengi vel erlendis en kom heim eftir tveggja áratuga starfstíð í Þýskalandi og Austurríki, tók þá við starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands en var að syngja samhliða því allt til sextíu og fimm ára aldurs.

Sigurður sem telst lýrískur tenór kemur úr Hafnarfirði, fæddur árið 1932. Hann er af söngelsku fólki kominn, báðir foreldrar hans sungu í kirkjukór og sjálfur var hann farinn að syngja ungur, auk þess sem hann spilaði á orgel eftir eyranu, lék á gítar og fleiri hljóðfæri og lék í lúðrasveit á bernskuárum sínum. Hann hafði eins og systkini sín fengið hljóðfæri í fermingargjöf – fiðlu og á hana lærði hann í fimm ár hjá Birni Ólafssyni fiðluleikara.

Árið 1950 þegar Sigurður var átján ára gamall hóf hann söngnám í einkakennslu hjá Pétri Á. Jónssyni og síðan Guðmundi Jónssyni óperusöngvurum en hann vakti fyrst almenna athygli þegar hann söng árið 1953 einsöng með karlakórnum Fóstbræðum en hann var meðlimur kórsins, í Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði og Þjóðleikhúskórnum. Fljótlega eftir það var Sigurður farinn að koma nokkuð fram opinberlega sem einsöngvari, bæði ásamt öðrum og einnig einn en hann var orðinn töluvert þekktur söngvari þegar hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1956, fyrstur söngvara en hann hafði þá verið í námi þar hjá Kristni Hallssyni um skeið.

Árið 1957 urðu þau tímamót í lífi Sigurðar að hann fór utan til Þýskands og hóf söngnám í Munchen þar sem hann átti eftir að vera næstu fimm árin. Á námsárum sínum kom hann reglulega í fríum heim til Íslands og söng þá iðulega eitthvað á tónleikum, t.a.m. fór hann í tónleikaferðir með Sinfóníuhljómsveit Ísland um landsbyggðina og söng einnig einsöng með Fóstbræðrum á tónleikaferð kórsins um norðurlönd, þar fyrir utan söng hann á fjölda einsöngstónleikum hér heima. Sigurður fór jafnframt víða um Evrópu á námsárum sínum, söng m.a. á tónleikum á Spáni, Tékkóslóvakíu, Austurríki, Belgíu og auðvitað Þýskalandi en auk þess vann hann til verðlauna í alþjóðlegri söngkeppni í Hollandi en hann þótti afar góður ljóðasöngvari ekkert síður en óperusöngvari.

Sigurður á yngri árum sínum

Árið 1960 kom svo út hér heima á vegum Íslenzkra tóna fjögurra laga plata sem bar titilinn Jólasálmar en það er eina platan sem kom út hér á landi í nafni Sigurðar, skýringuna má eflaust rekja til þess að hann starfaði svo lengi erlendis. Síðar (1965) lá fyrir að hann færi í plötuupptöku í Þýskalandi, átti þar að syngja inn kantötur eftir Bach en því miður er hvergi að finna upplýsingar um þær upptökur, hvort þær komu einhvern tímann út – og er hér með óskað eftir frekari upplýsingum um þá plötuútgáfu sem og aðrar sem mögulega hafa átt sér stað með söng hans.

Að námi loknu í Þýskalandi árið 1962 hafði Sigurður ekkert ákveðið að starfa erlendis, hugur hans snerist alltaf um að koma heim til Íslands, syngja eitthvað eins og gengur og gerist, og fást við söngkennslu eins og flestir einsöngvarar hér heima gerðu. Hann sló þó til þegar honum bauðst að ganga til liðs við Ópeuna í Stuttgart til eins árs en að loknum þeim tíma hlaut hann fastráðningu og starfaði þar næstu árin. Um var að ræða ríkisóperu með fjölda stórra nafna svo hann fékk ekkert endilega bestu eða stærstu hlutverkin til að syngja en á hinn bóginn var þetta ágæt reynsla og stökkpallur fyrir frekari söngferil.

Á Stuttgart árum sínum kom Sigurður reglulega heim til Íslands, söng þá við ýmis tæifæri s.s. einsöng í stórum verkum s.s. Messíasi e. Händel, 9. sinfóníu Beethovens, Jóhannesar passíuna og Requiem e. Mozart með stórum kórum eins og Söngsveitinni Fílharmóníu og Pólýfónkórnum, og hljómsveitum eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands og stórum kammersveitum, en einnig á sjálfstæðum einsöngstónleikum, þá söng hann einnig einsöng í jólaóratoríum í Danmörku tvívegis að minnsta kosti og með Karlakór Reykjavíkur á heimssýningunni í Montreal í Kanada – aðal starf Sigurðar var þó auðvitað óperusöngur í Stuttgart og þar söng hann misstór hlutverk í tugum ópera og hafði nóg að gera, einn veturinn söng hann t.d. yfir hundrað sinnum í óperunni.

Sigurður Björnsson

Árið 1968 færði Sigurður sig norðar í Þýskalandi og gerði samning við óperuhúsið í Kassel, sem var töluvert minna um sig en óperan í Stuttgart en um leið fékk hann þar stærri hlutverk og varð þar fyrsti tenór. Á þessum tíma hafði hann gifst austur-þýsku óperusöngkonunni Siegelinde Kahmann og sungu þau stundum saman á tónleikum þegar þau komu heim til Íslands, hann hélt áfram að koma reglulega hingað heim til að syngja ýmis einsöngvarahlutverk í stærri verkum en það var svo haustið 1972 sem þau hjónin fluttu sig aftur um set og fóru nú yfir landamærin til Austurríkis þar sem hann hóf störf við óperuna í Graz og svo sem gestasöngvari í Vín. Þau bjuggu nú og störfuðu í Austurríki næstu þrjú árin en voru svo bæði ráðin til Óperunnar í Munchen í Þýskalandi en þar var Sigurður auðvitað vel kunnugur, hafði búið þar í nokkur ár á námsárunum sínum eins og áður er getið.

Sem fyrr komu þau hjónin reglulega heim til Íslands, Sigurður söng hér eins og áður stór einsöngshlutverk á stórtónleikum en einnig í óperum sem settar voru hér á svið í Þjóðleikhúsinu s.s. Leðurblökunni. Þá kom hann einnig inn í Einsöngvarakvartettinn sem hafði verið stofnaður nokkrum árum áður af Svavari Gests, og söng inn á plötu með kvartettnum sem kom út 1972, og svo aðra sem kom út sex árum síðar en Sigurður var þó í raun aldrei fastur meðlimur kvartettsins sem starfaði reyndar ekki samfleytt.

Árið 1975 fór Sigurður í langa tónleikaför með Karlakór Reykjavíkur til Bandaríkjanna en tvöföld plata var gefin út með úrvali laga frá þeirri tónleikaför, þá hafði hann einnig sungið áður með kórnum á þrjár plötur sem SG-hljómplötur höfðu gefið út með lögum eftir Sigvalda Kaldalóns (1971), Bjarna Þorsteinsson (!972) og Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson (1974). Söng hans með kórnum má svo einnig heyra á safnplötu kórsins – Hraustir menn, sem út kom 1999. Sigurður fór svo í aðra langa tónleikaferð vestur um haf 1976, þá með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hélt fjölda tónleika á slóðum Vestur-Íslendinga í Winnipeg.

Um áramótin 1976-77 bauðst Sigurði staða framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þá fannst honum tímabært að halda heim á leið eftir að hafa búið og starfað erlendis í tvo áratugi án þess nokkurn tímann að hafa ætlað að gera það. Þetta varð aðal starfi hans næstu árin en hann var þó hvergi nærri hættur að syngja, kom fram sem einsöngvari og óperusöngvar við ýmis tækifæri á bæði stærri og minni samkomum, og oft jafnvel ásamt eiginkonu sinni Sieglinde sem hóf að kenna söng hér á landi við komuna hingað, þau hjónin sungu t.d. bæði í uppfærslu Þjóðleikhússins á óperunni Kátu ekkjunni en Sigurður hafði um það leyti sungið á annað hundrað óperuhlutverka á söngferli sínum, árið 1985 söng hann svo í tvö hundruðustu sýningu sinni í Leðurblökunni.

Sigurður í óperuhlutverki

Sigurður gegndi framkvæmdastjórastöðu sinni við sinfóníuna til ársins 1990 en útrunninn samningur við hans var þá ekki endurnýjaður – líklega af pólítískum ástæðum. Í hans stjórnartíð var ýmsum nútímalegum starfsháttum komið á og m.a. má nefna fjölbreyttara og léttara efnisval hljómsveitarinnar sem skilaði sér í fjölgun áhorfenda og áskrifenda en auðvitað voru ekki allir á eitt sáttir við þær breytingar sem urðu innan hennar. Hann kom jafnframt að ýmsum málefnum tengdum Sinfóníuhljómsveit Íslands í starfi sínu, var t.a.m. meðal stofnmeðlima Samtaka um byggingu tónlistarhúss og var um tíma í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík, m.a. sem formaður, þá var hann einnig um tíma í stjórn Menningarsjóðs.

Eftir að Sigurður hætti hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands hóf hann að starfa sem deildarstjóri á Skólaskrifstofu Reykjavíkur-borgar, í starfi sínu þar annaðist hann m.a. listkynningar í grunnskólum en þar fyrir utan fór hann að mennta sig í ferðamálafræðum og útskrifaðist sem leiðsögumaður árið 1992, og starfaði sem slíkur um tíma fyrir þýska ferðamenn einkum eftir að hann komst á eftirlaun, hann hafði einnig á árunum í kringum 1980 tekið að sér fararstjórn í menningarferðum á vegum ferðaskrifstofunnar Útsýnar.

Sigurður var hvergi nærri hættur að syngja og þau hjónin sungu í raun töluvert mikið á tónleikum fram á tíunda áratuginn og m.a. fóru þau ásamt austurrískum kvartett í nokkurra vikna tónleikaferð um Asíu, Sigurður var auk þess sem fyrr áberandi hér heima bæði sem einsöngvari í óperusýningum og -tónleikum þar sem stórir kórar og hljómsveitir komu við sögu, lengi vel kenndi hann jafnframt við kórskóla Pólýfónkórsins.

Þegar sýningum á óperunni Kátu ekkjunni lauk um haustið 1997 voru hjónin samstíga í því að hætta opinberum söng og sagði Sigurður í blaðaviðtali að betra væri að hætta aðeins of snemma heldur en aðeins of seint, hann var þá orðinn 65 ára gamall en átti reyndar eitthvað eftir að syngja fyrir þýska túrista í leiðsögustarfi sínu. Við þessi tímamót gáfu þau hjónin Tónlistarskólanum í Reykjavík veglegt nótna- og plötusafn sitt.

Sigurður Björnsson

Sigurður hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir ævistarf sitt sem söngvari og framkvæmdastjóri sinfóníunnar, hann hefur verið heiðraður m.a. hér heima með fálkaorðunni auk þess hefur Garðabær heiðrað hann en þar hefur hann búið lengst af síðan hann kom heim, sem dæmi um erlendar viðurkenningar má nefna hina austurríska kross Das Österreichische Ehrenkreuz für Wissenschaft und Kunst og þýsku orðuna Das Verdienstkreuz 1. Klasse.

Þrátt fyrir að aðeins ein smáskífa í nafni Sigurðar hafi komið út með söng hans má heyra söng hans á nokkrum útgefnum plötum í gegnum tíðina, áður hafa plötur Einsöngvarakvartettsins verið nefndar sem og Karlakórs Reykjavíkur en hann hefur einnig sungið á safnplötum eins og Árni Björnsson tónskáld: einsöngs- og kórlög (1980), Tónlist Gunnars Thoroddsen (1983), Lög eftir Þórarin Guðmundsson sungin og leikin (1978), Hafnarfjörður í tónum (1997), Óskastundin (2002), Íslenskar söngperlur (1991), Söngvasjóður (1993) og Söngvar frá Íslandi nr. 1 – 2 (1960) svo nokkrar séu nefndar, þá er einsöng hans einnig að finna á tveimur plötum Karlakórsins Fóstbræðra og á nokkrum jólasafnplötum en fyrrnefnd smáskífa Sigurðar innihélt einmitt jólasálma.

Efni á plötum