Hrím [1] (1967-70)

Hrím 1968

Siglfirska unglingahljómsveitin Hrím er líklega meðal þekktari sveita meðal heimamanna á Siglufirði þrátt fyrir að sveitin yrði ekki langlíf en hún vann sér það m.a. til frægðar að sigra hljómsveitakeppnina í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1969. Meðal hljómsveitarmeðlima var gítarleikarinn Gestur Guðnason sem átti síðar eftir að vekja töluverða athygli fyrir hæfni sína á hljóðfærið.

Hrím var stofnuð árið 1967 og var fyrsta skipan hennar með þeim hætti að Gestur Guðnason og Árni Jörgensen léku á gítara en þeir höfðu báðir starfað með bítlasveitinni Stormum, Kristján Jóhannsson var bassaleikari, Magnús Þormar Hilmarsson orgelleikari og Rúnar Egilsson trymbill – ekki er alveg ljóst hver var aðal söngvari sveitarinnar en Kristján söng eitthvað. Þannig var hljómsveitin skipuð fyrsta árið en þá hætti Magnús orgelleikari. Sveitin hafði ekki mikið leikið opinberlega fyrstu mánuðina, lék þó eitthvað á skemmtunum og dansleikjum á Siglufirði og lék þar blandaða tónlist – léttmeti í bland við bítlakennda tónlist sem þá var óðum að þyngjast.

Hrím

Sumarið 1969 hafði Kristján bassaleikari ráðgert að fara suður til Reykjavíkur í nám og seldi græjurnar sínar en lét þó til leiðast og lék með Hrími í hljómsveitakeppni sem haldin var í tengslum við útihátíð í Húsafelli um verslunarmannahelgina, þar voru um tuttugu þúsund hátíðargestir og sveitin gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina en níu sveitir tóku þátt. Reyndar höfðu áhorfendur ekki sett sveitina í fyrsta sæti en vægi dómnefndar sem m.a. var skipuð Jóni Múla Árnasyni, Gunnari Þórðarsyni og Ingimar Eydal var meira, og því sigraði Hrím og hlaut um leið titilinn Besta táningahljómsveitin 1969 auk þess að fá fimmtán þúsunda króna peningaverðlaun. Reyndar mun sveitin einnig hafa fengið vilyrði um plötuútgáfusamning við SG-hljómplötur en ekki varð neitt úr því.

Guðmundur Ragnarsson leysti Kristján bassaleikara af hólmi en sveitin lagðist svo fljótlega í dvala því að síðla árs hætti Gestur gítarleikari til að flytjast suður til Reykjavíkur, þar átti hann eftir að starfa með þekktum sveitum eins og Töturum og Eik. Svefn sveitarinnar var þó ekki langur því fljótlega á nýju ári (1970) tók hún aftur til starfa og þá hafði Sverrir Elefsen tekið við bassaleikarahlutverkinu og Magnús Guðbrandsson var orgelleikari en aðrir meðlimir voru þá Árni gítarleikari og Rúnar trommuleikari, Rúnar virðist á þeim tímapunkti hafa verið orðinn aðalsöngvari sveitarinnar en þeir munu flestir eða allir hafa sungið. Reyndar komst Hrím í fréttirnar snemma um vorið þegar Sverrir bassaleikari fékk raflost á æfingu og hlaut þá m.a. brunasár, meiðsli hans voru þó ekki alvarlegri en svo að hann lék með sveitinni skömmu síðar.

Hrím 1970

Hrím lék töluvert á dansleikjum og skemmtunum árið 1970 og m.a. var hljómsveitin meðal skemmtiatriða í Húnaveri um verslunarmannahelgina og spilaði reyndar flestar helgar fram á haust. Sveitin starfaði þar til í árslok en þá hafði Árni ákveðið að fara erlendis í nám og því hættu þeir félagar um það leyti.

Þess má að lokum geta þess til gamans að sveitin hafði tvo umboðsmenn á sínum snærum meðan hún starfaði, það voru þeir Theódór Júlíusson (síðar leikari) og Kristján L. Möller (síðar alþingismaður og ráðherra).