
Hunang 1994
Hljómsveitin Hunang starfaði um tæplega tveggja áratuga skeið á árunum í kringum aldamótin og gerði út á ballmarkaðinn en sveitin lék bæði á almennum sveitaböllum og dansleikjum í þéttbýlinu, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu.
Hunang var stofnuð að öllum líkindum haustið 1993 undir nafninu Sýróp ef heimildir eru réttar en þegar meðlimir annarrar sveitar með sama nafn (Síróp) gerði athugasemd um það var nafninu breytt í Hunang. Stofnendur sveitarinnar voru Jakob Rúnar Jónsson gítarleikari og Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson bassaleikari, Karl Örvarsson söngvari var meðal meðlima sveitarinnar frá byrjun en ekki er ljóst hverjir fleiri hleyptu henni af stokkunum – sumarið 1994 voru Geir Rafnsson trommuleikari og Níels Ragnarsson hljómborðsleikari einnig í Hunangi en ekki er víst hvort þeir höfðu verið í sveitinni frá upphafi.
Hljómsveitin kom í raun fyrst fram á sjónarsviðið um vorið 1994 þegar hún sendi frá sér lagið Glimmer á safnplötunni Heyrðu 4, og hóf að spila töluvert til að fylgja því eftir, m.a. á Gauki á Stöng en einnig nokkuð fyrir norðan því sveitin gerði líklega út frá Akureyri til að byrja með. Þeir félagar léku þá um sumarið einnig á sveitaböllum s.s. í Hreðavatnsskála og svo í Skjólbrekku og Kántríbæ um verslunarmannahelgina.

Hunang
Um veturinn var Hunang eins konar húshljómsveit á Ömmu lú og lék einnig á stöðum eins og Gauknum og Tveimur vinum, en þegar leið að sumrinu 1995 færði sveitin sig aftur út á landsbyggðina, þá léku þeir félagar í fyrsta skipti á Kaffi Reykjavík sem átti síðar eftir að verða eins konar heimavöllur Hunangs.
Sumarið 1995 sendu þeir Hunangs-liðar frá sér fimm laga plötu sem bar nafnið Travolta – reyndar átti platan upphaflega að bera nafnið John Travolta en fyrir eitthvert klúður gleymdist að setja skírnarnafnið John á umslag hennar. Travolta hafði að geyma fjögur gömul diskólög í þeirra búningi auk eins frumsamins lags – Come to me eftir Karl og Trausta Haraldsson, um það leyti hafði sveitin fært sig úr hefðbundnu ballprógrammi og lagði nú áherslu á diskótónlist og hafði því nokkra sérstöðu, einnig virðist hafa komið út í smærra upplagi sex laga útgáfa af plötunni sem hafði að geyma eitt diskólaganna, Funky town í endurhljóðblandaðri útgáfu.
Þarna höfðu orðið töluvert miklar breytingar á Hunangi frá upphafi, þá höfðu farið í gegnum sveitina þrír trommuleikarar, fjórir hljómborðsleikarar og tveir bassaleikarar en upplýsingar um nöfn þeirra eru að mestu óljósar nema að Tómas Tómasson virðist hafa verið bassaleikari um tíma – á þessum tímapunkti voru í sveitinni Karl söngvari og Jakob gítarleikari sem höfðu verið með frá upphafi en auk þeirra voru nú í sveitinni þeir Ingólfur Sigurðsson trommuleikari, Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari og Jóhann Ó. Ingvason hljómborðsleikari.
Í kjölfar útgáfu Travolta lék sveitin mikið á dansleikjum um land allt, s.s. á Akureyri, Egilsstöðum, Norðfirði og Vestmannaeyjum en var einnig mikið á höfuðborgarsvæðinu á stöðum eins og Kaffi Reykjavík, Borgarkjallaranum og Hótel Íslandi, og naut nokkurra vinsælda sem ballsveit þótt hún hefði ekki eiginlegan stórsmell á bak við sig. Og næstu árin á eftir voru þeir Hunangsliðar mikið á ferð og flugi um land allt, hér má nefna staði eins og Inghól og Gjána á Selfossi, Hótel Örk í Hveragerði, Kaffi Krók á Sauðárkróki, Hótel Bjarkalund og svo auðvitað Kaffi Reykjavík en sveitin lék einnig eitthvað á skólaböllum yfir vetrartímann. Sveitin spilaði einnig í nokkur skipti erlendis meðan hún starfaði, m.a. í Danmörku, Skotlandi og Grænlandi.

Hunang
Um nokkurra mánaða skeið kom Herbert Guðmundsson fram með sveitinni sem söngvari og gítarleikari í forföllum Karls Örvarssonar og einhverjar fleiri breytingar voru á skipan sveitarinnar, t.a.m. kom Jón Borgar Loftsson inn í hana í stað Ingólfs trommuleikara árið 1997 og um það leyti hafði Karl O. Olgeirsson hljómborðsleikari einnig komið inn í sveitina, á þeim tímapunkti voru því Jakob, Hafsteinn, Karl Olgeirs, Jóhann, Jón Borgar og Herbert í sveitinni og Jakob því eini upprunalegi meðlimurinn um tíma. Herbert var sá sem helst leysti Karl söngvara af.
Árið 1998 sendi Hunang frá sér tvö ný lög á safnplötunni Svona er sumarið ´98, Dreamlover og Alveg eins og þú, lögin voru ólík – annars vegar diskólag og hins vegar bítlapopp sem bæði nutu nokkurra vinsælda. Sveitin spilaði töluvert um sumarið til að fylgja tónlistinni eftir en af því er virðist mest á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1999 fór fremur lítið fyrir sveitinni og Karl söngvari var lítið með henni á þeim tíma, hann var þó með árið 2000 en það var þó ekki fyrr en 2001 sem Hunang var komið á fullt skrið á nýjan leik í ballspilamennskunni, þeir félagar voru þó mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu á stöðum eins og Kaffi Reykjavík, Gauknum, Cafe Amsterdam og Players í Kópavogi.
Hunang starfaði nokkuð samfleytt næstu árin og virðist að mestu hafa verið skipuð sama mannskap nema að Karl Olgeirs var þá hættur. Hér að framan hefur Herbert Guðmundsson verið nefndur í afleysingum fyrir Karl söngvara en einnig virðist sem Böðvar Rafn Reynisson (Böddi í Dalton), Karl Bjarni Guðmundsson (Kalli Bjarni) og Margrét Eir Hjartardóttir hafi komið við sögu sveitarinnar, það hefur þó líklega verið eftir aldamótin.
Sveitin spilaði þó fremur lítið og stundum varla nema fáein skiptið yfir árið, og frá og með 2009 virðist hún spila nær eingöngu á Spot í Kópavogi sem þá opnaði um sumarið. Hunang starfaði því tiltölulega slitrótt til ársins 2012 en þá mun hún endanlega hafa hætt störfum.














































