
Hún andar
Hljómsveitin Hún andar var töluvert þekkt stærð í neðanjarðarsenunni á tíunda áratug síðustu aldar en sveitin kom frá Akureyri, lék stöku sinnum sunnan heiða en mest á heimaslóðum fyrir norðan.
Hún andar var stofnuð snemma sumars 1992 og var skipuð þremur meðlimum hljómsveitarinnar Lost sem hafði starfað á Akureyri fáeinum árum fyrr, það voru þeir Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson (Rögnvaldur gáfaði) bassaleikari, Sigurjón Baldvinsson (Ziggy) gítarleikari og Kristján Pétur Sigurðsson söngvari en fjórði liðsmaðurinn var trommuleikarinn Magnús Rúnar Magnússon. Þannig var sveitin skipuð á fyrstu tónleikum sveitarinnar í Dynheimum á Akureyri um sumarið en fljótlega eftir það hafði annar söngvari bæst í hópinn, Kristinn Þeyr Magnússon (Kikko) og var sveitin kvintett eftir það. Sveitin spilaði eins konar pönkrokk og þess má geta að nafn hennar var fengið úr ljóðabókinni Hlustir eftir Björn Garðarsson en þar ber eitt ljóðanna þennan titil.
Hún andar lék töluvert í framhaldinu á tónleikum á Akureyri, m.a. í Borgarbíói, Dynheimum og 1929 um veturinn og í febrúar 1993 fór sveitin í fyrsta sinn suður til Reykjavíkur og spilaði þá á Tveimur vinum. Einnig léku þeir félagar í nágrannasveitarfélögum fyrir norðan s.s. á Húsavík og Skagaströnd.

Hún andar
Hún andar hafði farið í hljóðver á höfuðborgarsvæðinu og um sumarið birtist hljómsveitin með lagið Beint strik á safnplötunni Núll & nix sem kom út á vegum Smekkleysu og tímaritsins Núllsins, sveitin lék um svipað leyti ásamt fjölda annarra sveita á útgáfutónleikum tengdri þeirri safnplötu, og síðar um sumarið var hún með lag í leiksýningunni Rómeró og Júlíana sem sett var upp í Listagilinu á Akureyri.
Sveitin var orðin nokkuð þekkt nafn í neðanjarðarrokksenunni og starfaði áfram næstu tvö árin í það minnsta, þeir félagar spiluðu töluvert framan af árinu 1994 bæði á heimaslóðum og á höfuðborgarsvæðinu en minna um mitt árið, sveitin birtist svo aftur um haustið og lék þá m.a. á minningartónleikum um Steinþór Stefánsson. Svo virðist sem Hún andar hafi upp frá því lognast útaf og hætt störfum um veturinn 1994-95. Liðsmenn sveitarinnar hafa síðan starfað með fjöldanum öllum af misþekktum rokks- og poppsveitum og jafnvel komið við í léttari tónlist einnig.
Löngu síðar eða árið 2016 var rykið þurrkað af gömlum upptökum með sveitinni, og út kom plata – Demos, sem hafði að geyma tíu lög með sveitinni frá því að hún starfaði á tíunda áratugnum.














































