
Höskuldur Stefánsson
Nafn Höskuldar Stefánssonar er vel þekkt um Austfirði enda mætti segja að hann sé einn af frumkvöðlum og framámönnum í tónlistarstarfinu á Norðfirði en hann kom að tónlistinni þar með ýmsum hætti, sem organisti, kórstjóri, lúðrasveitstjórnandi, danshljómsveitarmaður og ýmislegt annað.
Höskuldur Stefánsson var fæddur vorið 1930 og uppalinn í Neskaupstað, hann komst í kynni við tónlistina strax á unga aldri því móðir hans lék á harmoníum og kenndi drengnum á hljóðfærið en að öðru leyti var Höskuldur sjálfmenntaður í tónlistinni. Hann eignaðist sína fyrstu harmonikku um fermingu og var fljótlega eftir það farinn að leika á dansleikjum, ýmist einn eða í félagi við aðra eins og Magnús Guðmundsson, Svavar Benediktsson o.fl. en þá voru böllin haldin í Góðtemplarahúsinu, Grænuborg og víða. Höskuldur lék mestmegnis á heimaslóðum en einnig fór hann allt suður til Hafnar í Hornafirði til að leika á dansleikjum.
Svo fór að Höskuldur fór suður í nám við Samvinnuskólann í Reykjavík þar sem hann lauk námi 1951, hann varð fljótlega eftirsóttur spilari syðra og lék m.a. á dansleikjum innan skólans og einnig eitthvað á Akranesi. Hann hóf svo að leika með hljómsveit Svavars Gest þar sem hann lék á píanó og harmonikku. Sú sveit mun hafa farið til Vestmannaeyja og leikið þar um hríð en Höskuldur ílengdist þar og lék svo með Hljómsveit Guðmundar H. Nordal og svo Haraldi Guðmundssyni og félögum í H.G. sextettnum þar sem hann kom inn í sveitina þegar hún var að fara í hringferð í kringum landið sumarið 1952. Í lok þeirrar ferðar var sextettinn lagður niður og fljótlega eftir það fluttist Höskuldur aftur á heimaslóðir austur á firði þar sem tónlistarstarf hans þar hófst fyrir alvöru.
Höskuldur hafði verslunar- og skrifstofustörf að aðal atvinnu á Norðfirði en tónlistin kom þar á eftir og hóf hann að láta til sín taka strax árið 1954 þegar hann átti þátt í að stofna Lúðrasveit Neskaupstaðar og varð síðan fyrsti stjórnandi sveitarinnar. Hann átti einnig stóran þátt í að fá fyrrum hljómsveitarstjóra sinn úr Vestmannaeyjum, Harald Guðmundsson til að koma austur árið 1955 og taka m.a. annars við lúðrasveitarstjórninni en Haraldur varð einnig stórt nafn í tónlistinni eystra í kjölfarið, sjálfur lék Höskuldur á básúnu í lúðrasveitinni en hann hafði numið básúnufræðin af sjálfum sér þegar sveitin var stofnuð – hann lék stundum einleik með lúðrasveitinni.

Höskuldur Stefánsson
Höskuldur starfaði einnig með danshljómsveitum á Norðfirði í kjölfarið, Haraldur stofnaði H.G. sextettinn (hinn síðari) og Höskuldur lék með þeirri sveit um árabil, sem og eigin sveit, eins konar dixielandsveit sem var stofnuð innan lúðrasveitarinnar og gekk iðulega undir nafninu Hljómsveit Neskaupstaðar eða Danshljómsveit Neskaupstaðar. Hann stofnaði svo síðar sjálfur hljómsveit í eigin nafni sem ýmist var kölluð HS sextett eða hljómsveit Höskuldar Stefánssonar en sú sveit starfaði á árunum 1959-63. Eftir það starfaði hann minna með hljómsveitum eftir því sem heimildir herma en þó var hann í starfandi danshljómsveit sem starfaði í nokkur ár í kringum 1970 undir nafninu Einu sinni var.
Höskuldur kom heilmikið fram á dansleikjum og öðrum tónlistartengdum uppákomum fyrir austan með Haraldi Guðmundssyni þar sem þeir tveir voru að leika m.a. fyrir dansi, og síðar átti hann eftir að koma töluvert fram opinberlega með syni sínum Stefáni þverflautuleikara syni sínum (sem síðar átti eftir að verða þekktur tónlistarmaður). Hann varð einnig eftirsóttur píanó- og harmonikkuleikari á almennum skemmtunum, við undirleik eða til að leika dinner tónlist svo dæmi séu nefnd, allt fram á nýja öld.
Um miðjan sjötta áratuginn hafði Höskuldur átt sinn þátt í að stofna lúðrasveitina og hann átti líka stóran þátt í að stofna tónlistarskóla á Norðfirði og kenna við skólann – meðal nemenda hans þar má nefna bræðurna Lárus og Birgi Sveinssyni. Þá var hann ráðinn sem organisti og kórstjórnandi við kirkjuna í þorpinu og gegndi því starfi á árunum 1955-65, og svo aftur síðar í kringum 1980. Um tíma var hann framkvæmdastjóri félagsheimilisins Egilsbúðar í Neskaupstað og stýrði því tónlistarstarfi og dansleikjum þar, og þegar harmonikuvakningin kom til sögunnar undir lok áttunda áratugarins varð hann virkur í Félagi harmonikuunnenda á Norðfirði.
Sem fyrr segir var Höskuldur mestmegnis við verslunarstörf á Norðfirði, hann rak einnig um tíma verslun á Reyðarfirði og bjó þar um nokkurra ára skeið en fluttist svo til Egilsstaða þar sem hann lést árið 2005, hann hafði þá átt í veikindum um árabil.














































