Afmælisbörn 11. desember 2025

Guðlaugur Kr. Óttarsson

Í dag eru þrjú afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Fyrst er það Guðlaugur Kristinn Óttarsson tónlistarmaður en hann er sjötíu og eins árs gamall. Hann hefur leikið sem gítarleikari í fjölmörgum en misþekktum hljómsveitum eins og Steinblómi, Lótusi, INRI, Kukli, Elgar sisters, Sextett, Current 93, Galdrakörlum og Þey en síðast talda sveitin er kannski sú þekktasta. Guðlaugur hefur einnig gefið út sólóefni og hefur stundum kallað sig GVDL.

Svo er það harmonikkuleikarinn og lagahöfundurinn Valdimar J. Auðunsson frá Dalseli (1914-90) sem lék á fjölda dansleikja á Suðurlandi á sínum yngri árum. Hann var einnig lagahöfundur og vann oft til verðlauna í sönglagakeppnum SKT, mörg laga hans hafa verið gefin út á plötum en þeirra þekktast er líklega Ástartöfrar sem Björk Guðmundsdóttir og Tríó Guðmundar Ingólfssonar gerðu skil á frægri plötu. Fjölskylda Valdimars gaf út tíu laga plötu með lögum hans, einnig undir titlinum Ástartöfrar, að honum látnum.

Og að síðustu er hér nefndur trommuleikarinn Halldór Gunnlaugur Hauksson eða Halli Gulli, hann er fimmtíu og níu ára á þessum degi. Halli Gulli lék með fjöldanum öllum af hljómsveitum hér fyrrum og hér má nefna sveitir eins og Mó, Skriðjökla, Steðjabandið, Stjórnina, Svartan ís, Jafnaðamenn, N1+, Þúsund andlit, Spark, Hvíta hrafna og Skröltormana svo aðeins nokkrar séu nefndar.