Afmælisbörn 28. desember 2025

Ingvi Steinn Sigtryggsson

Glatkistan hefur í fórum sínum upplýsingar um fjölda tónlistartengdra afmælisbarna á þessum degi:

Ingvi Steinn Sigtryggsson tónlistarmaður frá Keflavík er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Hann gaf út litla plötu 1973 sem hafði að geyma Flakkarasönginn, sem naut nokkurra vinsælda. Ingvi Steinn lék með ýmsum hljómsveitum á áttunda áratugnum, og má hér nefna sveitir eins og Ábót, Freeport, Deildarbungubræður, Bóluhjálma, Sheriff, Dínamít, Júbó og Júdas.

Stefán (Gunnar) Jökulsson trommuleikari er sjötíu og sex ára gamall í dag en hann kom við sögu nokkurra hljómsveita hér á árum áður. Hæst þeirra ber líklega hljómsveitin Orion sem gaf út fjögurra laga plötu með söngkonunni Sigrúnu Harðardóttur í fararbroddi en einnig má nefna sveitir eins og Adam og Spangólín.

Þá má nefna Færeyinginn Jógvan Hansen sem hefur búið hér á landi og starfað um árabil en hann er fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Hann vakti fyrst athygli hér er hann sigraði X-faktor keppni Stöðvar 2 árið 2007 en hann hefur síðan tekið þátt í undankeppnum Eurovision hér á landi, gefið út sóló- og aðrar plötur í félagi við Friðrik Ómar og fleiri, auk þess að starfa með fjöldanum öllum af íslensku tónlistarfólki við hvers kyns verkefni.

Elly Vilhjálms söngkona (f. 1935) hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hún lést 1995. Elly (Henný Eldey Vilhjálmsdóttir) var af Suðurnesjunum og var snemma uppgötvuð sem söngkona, hún söng með ýmsum hljómsveitum þess tíma, lengst af með KK-sextett, Orion kvintett og Hljómsveit Svavars Gests, en Svavar varð þriðji eiginmaður hennar. Elly söng sig fljótlega inn í hjörtu landsmanna og samstarf systkinanna, Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar er löngu orðið sígilt. Fjölmargar plötur komu út með söngkonunni á sínum tíma en hún dró sig í hlé snemma, allt of snemma segja flestir, en hafði við ævilok komið aftur fram á sjónarsviðið.

Gítarleikarinn Einar Ingi Jónsson (fæddur 1957) átti afmæli á þessum degi en hann lést í upphafi árs 2025. Hann lék með nokkrum þekktum sveitum á sínum tíma sem og fjölmörgum öðrum, og hér má nefna Foringjana, Drýsil, Cobra, Músíkbandið, Þrumuvagninn / Tívolí, Demo, Röddina og The Dumb blonde brunette duet svo fáeinar séu nefndar. Þá vann hann einnig tónlist með Eyjólfi bróður sínum undir nöfnunum EJ Rock project og Brothers.

Og að síðustu er hér nefndur Hallfreður Örn Eiríksson þjóðsagna- og rímnasafnari (1932-2005). Hallfreður er án nokkurs vafa einn öflugasti safnari íslenskra þjóðsagna og rímna og yfir þúsund klukkustundir af efni mun vera varðveitt á segulböndum á Árnastofnun, sem hann safnaði á ferðum sínum um landið. Hann sendi frá sér kassettuna Frá liðinni tíð árið 1984 og árið 2003 kom út í tilefni af sjötugs afmælis hans platan Hlýði menn fræði mínu.