
Óttar Felix Hauksson
Í dag eru sex afmælisbörn á lista Glatkistunnar, þau eru eftirfarandi:
Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) er sjötíu og sex ára gamall í dag. Hann hefur vægast sagt komið víða við á sínum ferli enda fjölhæfur með afbrigðum, spilar á flest hljóðfæri, útsetur og semur tónlist. Framan af var hann í hljómsveitum eins og Náttúru, bjó síðar í Vestmannaeyjum þar sem hann stjórnaði kórum og kenndi tónlist, en eftir að hann eignaðist hljóðverið Stemmu varð það hans aðalstarf. Diddi hefur sérhæft sig í upptökum á kóratónlist og hefur tekið upp hundruðir slíkra platna.
Óttar Felix Hauksson, sem á sínum tíma var talað um sem bítlaaðdáanda númer eitt á Íslandi er líkt og Diddi fiðla, sjötíu og sex ára á þessum degi. Hann lék með sveitum eins og Geislum, Pops og Sonet á árum áður, gerðist umboðsmaður hljómsveita og tónleikahaldari, síðar útgefandi þegar hann stofnaði Sonet útgáfuna. Á síðari árum hefur Óttar Felix starfrækt hljómsveitir eins og Gullkistuna og Specials, auk Pops.
Norðfirðingurinn og athafnamaðurinn Guðjón Birgir Jóhannsson hljómborðsleikari Out loud og hljóðmaður hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands fagnar fjörutíu og eins árs afmæli sínu á þessum degi
Árni Tryggvason (1924-2023) eða Lilli klifurmús hefði átt afmæli á þessum degi. Árni var fyrst og fremst þekktur sem leikari og allir þekkja hann af plötunni um Dýrin í Hálsaskógi en söng hans og leik er að finna á ótal plötum sem tengjast leiklistinni, þá hafa tvær plötur komið út í nafni Árna – annars vegar lítil plata 1971 og svo önnur með tónlist úr söngleikjum árið 1992.
Sigurður Reynir Pétursson (1921-2007) fyrrverandi framkvæmdstjóri STEFs hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjórans í tuttugu ár, var einnig lögfræðingur samtakanna og FÍH um árabil auk þess að vera framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda um tíma.
Og að síðustu er hér nefndur kvikmyndagerðar- og tónlistarmaðurinn Hilmar Oddsson en hann fagnar sextíu og níu ára afmæli í dag. Hilmar var heilmikið í tónlist áður en hann menntaði sig í kvikmyndafræðum en hann starfaði m.a. með hljómsveitinni Melchior og gaf út tvær sólóplötur í eigin nafni en sú fyrri hafði m.a. að geyma lögin Allur lurkum laminn og Önnur sjónarmið, sem nutu feikimikilla vinsælda á sínum tíma. Hilmar hefur einnig samið kvikmynda- og leikhústónlist.














































