Óttar Felix Hauksson (1950-)

Óttar Felix ungur að árum

Óhætt er að tala um Óttar Felix Hauksson sem athafnamann en hann fer mikinn í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur, hvort sem það tengist tónlist eða öðru.

Óttar Felix fæddist 1950, hann söng í kór á barnsaldri og mun hafa afrekað að syngja einsöng með þeim kór í útvarpsútsetningu. Á unglingsárum mun hann hafa spilað með hljómsveitinni Geislum/Glömpum en svo birtist hann sem gítarleikari í hljómsveitinni Sonet (í kringum 1966), þá var hann þó þegar orðinn landsfrægur fyrir að hafa séð bítlamyndina A Hard day‘s night alls þrjátíu sinnum. Síðar viðurkenndi hann að um auglýsingaferð á vegum Tónabíós hefði verið að ræða.

Óttar varð þekktur fyrir líflega sviðsframkomu á þessum árum en eftir Sonet tímabilið tók við hljómsveitin Pops. Með Pops vakti Óttar mikla hneykslan gamaldags fjölmiðlamanna og athygli þegar hann afklæddi gínu og hafði uppi kynferðislega tilburði í garð hennar, á sviðinu á frægum tónleikum í Háskólabíói 1969. Þannig varð hann í raun þekktari sem týpa eða karakter fremur en tónlistarmaður.

Um og eftir Pops tímabilið tók við annars konar tónlistarleg nálgun hjá Óttari en hann varð þá m.a. rótari hjá Hljómum og síðar Trúbrot áður en hann fluttist til Danmerkur en þar bjó hann um tíma, starfaði m.a. við líkgröft.

Óttar Felix 1977

Þegar heim var komið fékkst hann við eitt og annað, sölumennsku og síðar fatainnflutning og verslunarstörf en einnig fékkst hann við tónleikahald og umboðsmennsku. Hann var t.a.m. framkvæmdastjóri Stuðmanna 1976 og hélt utan um túr þeirra í kringum landið í tilefni af útgáfu plötunnar Tívolí. Hann var eitthvað tengdur hljómsveitinni Cabaret um miðjan áttunda áratuginn, líklega lék hann með þeirri sveit um skamman tíma

Óttar Felix var lítið áberandi næstu árin á eftir, hann bjó í Danmörku um miðjan níunda áratuginn og menntaði sig þar í matvælatæknifræðum en kom einstöku sinnum fram, m.a. á tónlistarsýningunni Týndu kynslóðinni og með hljómsveitinni Sveitin milli sanda en hann hafði þá ekki stigið á svið sjálfur í hartnær tvo áratugi. Ennfremur kom hann að stofnun hljómsveitarinnar GCD en að öðru leyti kom hann lífið við sögu íslenskrar tónlistar og einbeitti sér að fyrirtækjarekstri sínum en hann var þá eigandi Kjarnavara. Óttar var einnig áberandi í skákhreyfingunni hér á landi.

Það var svo seint á tíunda áratugnum og í byrjun nýrrar aldar sem tónlistin varð aftur miðpunkturinn í lífi Óttars Felix, hann rak JAPIS um tíma, kom að endurkomu hljómsveitarinnar Hljóma, gerðist framkvæmdastjóri þeirra og stofnaði plötuútgáfuna Zonet. Þá gerðist hann einnig umboðsmaður Mannakorna, Guitar Islancio og fleiri tónlistarmanna í gegnum Zonet og endurútgaf tónlist Ítalans Robertino hér á landi og erlendis, og varð einnig nokkuð umsvifamikill varðandi menningartengsl við Kína, kom skjólstæðingum sínum á Kínamarkað og greiddi götu þeirra þar í landi.

Og Óttar Felix varð töluvert áberandi í öðrum tónlistartengdum verkefnum, hann rak um tíma Austurbæjarbíó, komst í fréttirnar þegar hann komst yfir upplagið af Hljómabókinni frægu sem gefin hafði verið út fjörutíu árum áður, hélt styrktartónleika fyrir Sólheima í Grímsnesi, minningartónleika um John Lennon o.s.frv.

Óttar Felix Hauksson

Gömlu sveitirnar hans, Sonet og Pops voru einnig endurlífgaðar og þær hafa spilað reglulega hin síðari ár en einnig hefur hann birtst með nýjar sveitir þar sem hann er sjálfur aðalsprautan, Gullkistan og Specials eru þeirra á meðal.

Óttar Felix hefur þrátt fyrir nokkuð mikil umsvif í íslensku tónlistarlífi, lítið komið við sögu sem flytjandi á plötum, þess má þó geta að hann lék á gítar á smáskífu Megasar frá 1975 (með lögunum Spáðu í mig / Komdu og skoðaðu í kistuna mína) en einnig söng hann á plötu Hermanns Gunnarssonar og Rúnars Júlíussonar 1993, hann hefur aukinheldur sungið raddir á fáeinum plötum til viðbótar.

Hin allra síðustu ár hefur Óttar Felix snúið sér að nýjum og annars konar verkefnum en hann lauk BA-prófi og síðan mastersgráðu í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands og hefur þ.a.l. minna haft sig í frammi í tónlistarlegum skilningi.