Ótukt (1996-2000)

Ótukt á forsíðu Veru

Gleðisveitin Ótukt var starfrækt um nokkurra ára skeið fyrir aldamótin síðustu. Sveitin var kvennasveit og gerði út á að spila ábreiðulög sem aðrar sveitir höfðu ekki endilega á prógrammi sínu.

Sveitin var upphaflega sett saman fyrir eina stutta uppákomu um haustið 1996 en hlaut svo góðar undirtektir að ekki var aftur snúið og hún starfaði nánast samfleytt til 2000, og kom reyndar saman aftur og lék á Gay pride árið 2004.

Meðlimir Ótuktar voru Elíza Geirsdóttir Newman söngkona og Anna Margrét Hraundal gítarleikari (báðar úr Kolrössu krókríðandi / Bellarix), Kristín Eysteinsdóttir söngkona, Kristín Þórisdóttir (Kidda rokk) bassaleikari og Kristín Þorsteinsdóttir (Stína bongó) slagverksleikari.

Ótukt átti tvö lög á safnplötunni Stelpurokk: Sex íslenskar kvennahljómsveitir, tíu söngkonur, eitt ljóðskáld, sem tímaritið Vera gaf út 1997. Einnig var gerð heimildamynd um hljómsveitina Ótukt.