
Hættuleg hljómsveit
Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Jónsson (Megas) sendi sumarið 1990 frá sér tvöfalt albúm sem bar nafnið Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella en sá titill á sér skírskotun í sögurnar um Basil fursta.
Nokkur fjöldi tónlistarfólks kom að gerð plötunnar með Megasi en útgáfa hennar var með þeim hætti að hann gaf plötuna út sjálfur og hún var að mestu seld í áskrift en ekki í plötubúðum – í 2999 eintökum. Platan kom út bæði á vínyl og geisladiski, og var síðan endurútgefin af Íslenskum tónum árið 2006 með aukaefni. Oft er talað um þessa plötu sem þriðju plötuna í tríólógíunni Loftmynd / Höfuðlausnir / Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella.
Til að fylgja eftir útgáfu plötunnar var sett saman hljómsveit sem að mestu leyti var skipuð kjarna þeirra er léku á henni en einnig urðu einhverjar mannabreytingar á sveitinni meðan hún starfaði, sveitin hlaut sama nafn og platan – Hættuleg hljómsveit en viðskeytinu „og glæpakvendið Stella“ fylgdi oft með
Hættuleg hljómsveit lék mjög víða á því rúmlega ári sem sveitin starfaði frá vorinu 1990 til vorsins 1991, s.s. á stöðum eins og Hótel Borg, Gauki á Stöng, Púlsinum, Gikknum við Ármúla og Tveimur vinum í Reykjavík en einnig úti á landi á Akranesi, Akureyri, Siglufirði og sjálfsagt víðar, þá hélt sveitin útgáfutónleika í Risinu í Borgartúni (gamla Klúbbnum). Stundum komu gestasöngkonur fram með sveitinni og t.a.m. söng Björk Guðmundsdóttir með þeim stundum en hún hafði sungið á plötunni, en einnig má hér nefna Andreu Gylfadóttur.
Annars skipuðu Hættulega hljómsveit á sínum tíma auk Megasar þeir Birgir Baldursson trommuleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Guðlaugur Kristinn Óttarsson gítarleikari, Hilmar Örn Hilmarsson hljómborðsleikari og Þórður Magnússon gítarleikari sem allir höfðu spilað á plötunni. Einnig léku með sveitinni hljómborðsleikararnir Jósep Gíslason og Jón Ólafsson um tíma en þó ekki á sama tíma.
Hættuleg hljómsveit starfaði sem fyrr segir fram á vorið 1991 eftir að hafa leikið töluvert um veturinn.














































