
Hafliði Jónsson
Hafliði Jónsson píanóleikari er sjálfsagt meðal þeirra tónlistarmanna sem hvað lengstan tónlistarferil hefur átt en hann lék opinberlega með hljómsveitum og sem undirleikari og píanóleikari frá því um 17 ára aldur og nánast fram í andlátið en hann lést rétt tæplega 96 ára gamall, þá var hann öflugur félagsmaður í FÍH og var í þeim félagsskap í næstum átta áratugi.
Hafliði Þórir Jónsson var Reykvíkingur í húð og hár, hann fæddist sumarið 1918 og snerist ævi hans um tónlist allt frá því að hann hóf að læra barnungur á harmóníum (fótstigið orgel) hjá Hallgrími Þorsteinssyni og síðan Jóni Pálssyni, og svo á píanó hjá Önnu Pjeturs og Þórunni Elfar áður en hann hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1934 og nam þá hjá Árna Kristjánssyni og svo Gunnari Sigurgeirssyni. Á sjötta áratugnum var hann um tíma einnig í námi hjá Wilhelm Lansky-Otto.
Hafliði byrjaði að spila opinberlega á unglingsárum, lék m.a. kaffihúsatónlist í Tjarnarcafé og svo fór hann ásamt Óskari Cortes norður á Siglufjörð sumarið 1935 til að spila á dansleikjum í miðju síldarævintýrinu, fyrst tveir en síðan við þriðja mann og var sveitin kennd við Óskar en Hafliði lék síðar töluvert með hljómsveitum hans. Þeir félagar léku í Bárunni við Tjörnina um veturinn en fóru aftur norður sumarið á eftir en síðan var Hafliði píanóleikari á Hótel Akureyri um skeið einnig.
Árið 1938 veiktist Hafliði af berklum og þurfti að dveljast í Danmörku um árs skeið til að fá bót meina sinna en þegar hann kom aftur heim til Íslands hóf hann fljótlega aftur að fást við spilamennsku samhliða verslunarrekstri sem hann stóð í um þriggja áratuga skeið. Á þessum tíma lék hann með fjölmörgum danshljómsveitum s.s. hljómsveitum Bjarna Böðvarssonar, Jónasar Dagbjartssonar, Óskars Cortes, Jans Morávek og Kristjáns Kristjánssonar auk þess sem hann starfrækti um tíma sveit í eigin nafni, en hann lék með slíkum hljómsveitum allt til ársins 1963. Hann vann einnig mikið sem sjálfstæður undirleikari og píanóleikari við ýmis tækifæri – hann var t.a.m. mikið að spila á stúkuskemmtunum og fékkst töluvert við að leika í brúðkaupum, jarðarförum, afmælis- og fermingaveislum, oft einn en einnig ásamt öðrum t.d. á kaffihúsum, í leiksýningum o.þ.h. Þá lék hann undir hjá þekktum óperusöngvurum eins og Pétri Á. Jónssyni og Ara Jónssyni, auk þess að skemmta sem píanóleikari á héraðsmótum víða um land en þar hófst samstarf hans við Ómar Ragnarsson sem þá var að stíga sín fyrstu spor í skemmtanabransanum en Hafliði var undirleikari hans um fjögurra ára skeið, hann var einnig undirleikari Templarakórsins um árabil. Hann fékk jafnframt eitthvað við píanókennslu.

Hafliði á forsíðu Tónamála, félagsrits FÍH
Hafliði hafði gengið í Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) árið 1935 og þar átti hann eftir að starfa í áratugi bæði sem almennur félagsmaður en einnig í stjórn félagsins, þannig var hann t.d. gjaldkeri FÍH á árunum 1960 til 88 en gegndi einnig margvíslegum störfum og embættum fyrir félagið, og m.a. sótti hann ótal þing fyrir hönd þess erlendis. Hafliði var síðar heiðraður fyrir félagsstörf sín með gullmerki félagsins og síðar með því að vera gerður að heiðursfélaga. Hafliði var þannig starfsmaður FÍH samhliða spilamennsku og verslunarrekstri en bankastörf höfðu síðan tekið við verslunarstörfunum. Hann fékkst einnig við ýmis önnur félagsstörf, var meðal stofnenda skemmtifélagsins Káts fólk og gegndi þar formennsku í átján ár, og var viðloðandi annars konar félagsstörf.
Hafliði sinnti spilamennsku af ýmsu tagi allt fram í andlátið, á eldri árum lék hann nokkuð fyrir eldri borgara og á sjúkrastofnunum og kom dóttir hans, Hrönn Hafliðadóttir söngkona stundum fram með honum við þess konar tækifæri og önnur. Hann var aukinheldur lengi undirleikari Söngfélags Félags eldri borgara í Reykjavík.
Hafliði Jónsson píanóleikari lést sumarið 2014 en hann átti þá um mánuð í 96 ára afmæli sitt.














































