Hafsteinn Sigurðsson (1945-2012)

Hafsteinn Sigurðsson

Hafstenn Sigurðsson var einn þeirra drifkrafta sem geta haldið tónlistarlífi heils bæjarfélags í gangi en hann var margt í mörgu þegar kom að þeim málum í Stykkishólmi.

Hafsteinn Sigurðsson fæddist í Stykkishólmi haustið 1945 og bjó þar alla tíð. Hann var lærður trésmiður og starfaði eitthvað við það en tónlistin átti eftir að taka yfir að mestu leyti. Hafsteinn mun hafa lært á einhver hljóðfæri ungur að árum og var t.a.m. meðlimur í Lúðrasveit Stykkishólms og einnig lék hann með fjölmörgum hljómsveitum í heimabænum, hér má nefna sveitir eins og Þórsmenn, Hljómsveit Jóns Svans Péturssonar, Ísjá og Hauka í horni en hann lék yfirleitt á hljómborð og harmonikku í þeim sveitum – hann var sjálfmenntaður á nikkuna. Samhliða spilamennsku með hljómsveitum var hann oft undirleikari kóra og söngvara á hvers kyns skemmtisamkomum í Hólminum, starfaði margsinnis sem hljóðfæraleikari og tónlistarstjóri í sýningum leikfélagsins Grímnis í Stykkishólmi, sá um útsetningar fyrir lúðrasveit bæjarsins og fleiri, og þannig mætti áfram telja.

Hafsteinn hóf að kenna við Tónlistarskólann í Stykkishólmi árið 1973 og þar átti hann eftir að verða einn af máttarstólpum bæjarfélagsins í tónlistarmálum en hann kenndi við tónlistarskólann allt til 2010 eða í um þrjátíu og sjö ár, þar af um tíma sem skólastjóri – reyndar var hann um þriggja ára skeið í Noregi en þar nam hann klarinettuleik samhliða smíðastörfum.

Harmonikufélag Stykkishólms var stofnað 1984 og fljótlega varð Hafsteinn formaður þess og gegndi því embætti alla tíð síðan, hann var í raun lífið og sálin í félaginu því þegar hann lést vorið 2012 lagðist félagsstarfsemin niður um leið. Hafsteinn hafði þá átt í veikindum um nokkurra mánaða skeið og varð undan að láta eftir erfiða baráttu. Landsmót harmonikunnenda var tileinkað minningu hans árið 2022 en þá voru liðin tíu ár frá andláti hans.

Þess má geta að Jón Elfar Hafsteinsson gítarleikari (Stjórnin, Sigtryggur dyravörður o.fl.) er sonur Hafsteins.