
Upprunalega gerð Hálfs í hvoru
Hljómsveitin Hálft í hvoru á sér margslungna og langa sögu en hljómsveitin sem varð til fyrir hálfgerða tilviljun innan félagsskaparins Vísnavina var í upphafi tengd verkalýðsbaráttunni og endurspeglaði tónlist þann heim, þróaðist yfir í það sem meðlimir kölluðu sjálfir vísnapopp en varð síðan að hefðbundnara poppi áður en sveitin varð að ball- og pöbbatónlist, miklar mannabreytingar voru alla tíð innan sveitarinnar en að lokum var hún að miklu leyti skipuð upphaflegum meðlimum hennar. Hálft í hvoru sendi frá sér nokkrar plötur sem náðu ágætri hylli landsmanna.
Forsagan að stofnun Hálfs í hvoru var sú að tvær hljómsveitir voru starfandi um 1980, annars vegar Texas tríóið svokallaða sem þeir Ingi Gunnar Jóhannsson, Eyjólfur Kristjánsson og Örvar Aðalsteinsson skipuðu og hins vegar Tríó Túkall sem innihélt Bergþóru Árnadóttur, Gísla Helgason og Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Öll voru þau virk í starfsemi Vísnavina sem hélt utan um svokölluð Vísnakvöld um það leyti. Meðlimir sveitanna tveggja voru því málkunnugir og höfðu reyndar fyrir tilviljun leikið á sömu tónleikum og um vorið 1981 fóru sveitirnar saman í tónleikaferð á vegum Vísnavina þar sem þær deildu sviði þannig að stundum var óvíst hvor sveitin var að spila hverju sinni, það varð því úr að ákveðið var að sameina sveitirnar undir nafninu Hálft í hvoru þar sem þau Eyjólfur, Bergþóra og Ingi Gunnar léku á gítara, Örvar á bassa og Gísli á flautur en öll sungu þau jafnframt, og mikið í röddum.
Þá um sumarið og haustið lék sveitin þannig skipuð á Vísnakvöldum og í tónleikaferð um landsbyggðina ásamt dönsku vísnasöngkonunni Hanne Juul undir merkjum Vísnavina í samstarfi við Menningar- og fræðslusambands alþýðu (MFA) og verkalýðsfélög á hverjum stað en þar var einkum leikið á kaffistofum vinnustaða. Um það leyti gáfu Vísnavinir út plötuna Heyrðu… þar sem meðlimir Hálfs í hvoru komu allir við sögu þótt ekki væri það í nafni sveitarinnar og einnig kom hluti sveitarinnar við sögu á smáskífunni Jólasteinn yrir jólin 1981.
Í kjölfarið ákvað MFA að gefa út plötu með Hálfu í hvoru enda rímaði tónlist og textaboðskapur sveitarinnar ágætlega við hugmyndafræði vinstri vængsins, hæfilega pólitískir og náði eyrum almennings að því er virtist, platan markar að nokkru leyti tímamót á Íslandi því þetta mun hafa verið í fyrsta sinn sem verkalýðssamtök gáfu út plötu hér á landi. Platan var hljóðrituð í Stemmu hjá Sigurði Rúnari Jónssyni og leit dagsins ljós um vorið 1982 undir titlinum Almannarómur. Hún hlaut góða dóma í DV, Poppbók Jens Kr. og Morgunblaðinu en hún hafði að geyma blöndu frumsaminna og erlendra laga, m.a. lagið Verkamaður eftir Bergþóru (við ljóð Steins Steinarr) en það hafði áður komið út á fyrstu plötu hennar árið 1977, hún ásamt Gísla Helgasyni voru þekktust sveitarliða en hann hafði gefið út plötu ári fyrr í samstarfi við Arnþór bróður sinn – Í bróðerni, þau tvö áttu eftir að gefa út nokkrar sólóplötur sem og reyndar flestir meðlimir sveitarinnar síðar. Fjölmargir þjóðþekktir tónlistarmenn komu jafnframt við sögu við gerð plötunnar.

Hálft í hvoru 1983
Almannarómur hlaut almennt ágætar viðtökur og var töluvert mikið spiluð í Ríkisútvarpinu og sveitin hafði því nóg að gera í kjölfar útgáfu plötunnar, kom m.a. fram á viðburðum tengdum Listahátíð í Reykjavík, Reykjavíkurmóti barnanna og einnig í sjónvarpsþætti um sumarið. Þá fór Hálft í hvoru í heljarmikla tónleikaferð um landið til að fylgja plötunni eftir og þegar sveitinni bauðst að fara til Svíþjóðar síðsumars til að spila á nokkrum tónleikum greip hún það tækifæri. Að Svíþjóðarferðinni lokinni sagði Bergþóra reyndar skilið við sveitina og var talað um að hún ætlaði sér að einbeita sér að sólóferli sínum en hún var þá að gefa út sína aðra sólóplötu en raunveruleg ástæða þess að hún hætti mun hafa verið tónlistarlegur ágreiningur (sagan segir að hún hafi verið rekin úr sveitinni) og hér er auðvelt að giska á að hún hafi verið róttækust í skoðunum sínum til vinstri og vilja feta þá leið áfram á meðan aðrir meðlimir sveitarinnar voru á öðru máli – alltént þróaðist tónlist sveitarinnar frá þeirri stefnu í kjölfarið. Ágreiningurinn risti þó ekki dýpra en svo að þau áttu síðar í ágætu samstarfi en sveitina skipuðu nú karlmenn eingöngu, Eyjólfur, Ingi Gunnar, Örvar, Gísli og Aðalsteinn Ásberg.
Um veturinn 1982-83 spilaði sveitin mikið bæði á landsbyggðinni sem og í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Næsta sumar, 1983 fóru þeir félagar í aðra reisu um Svíþjóð en hér var um að ræða tveggja vikna túr þar sem sveitin lék á ellefu stöðum. Hluti hópsins kom svo við í Kaupmannahöfn og skemmti Íslendingum í Jónshúsi í lok ferðar. Þetta sama sumar voru þeir félagar farnir að huga að útgáfu annarrar plötu og síðsumars kom út tveggja laga smáskífa (Upp í sveit / Sitthvað er bogið) sem var eins konar forsmekkur að breiðskífunni sem var í vinnslu. Sú plata kom út í einungis tvö hundruð og fimmtíu árituðum og tölusettum eintökum sem aðeins voru seld í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur, og seldist sú skífa fljótlega upp og er í dag sjaldgæfur gripur.
Um haustið leit nýja breiðskífan ljós og hafði hlotið titilinn Áfram, þar kvað við nokkuð annan tón en verið hafði á fyrstu plötunni enda var nú að mestu leyti búið að sníða pólitíkina úr textum sveitarinnar. Öll lögin voru jafnframt samin af meðlimum sveitarinnar og flestir textarnir auk þess sem tónlistin var nú orðin ögn poppaðri, sjálfir skilgreindu þeir hana sem vísnapopp. Skífan var að mestu hljóðrituð í stúdíó Glóru við Selfoss þar sem Ólafur Þórarinsson (Labbi) réði ríkjum og eins og á fyrri plötunni höfðu þeir félagar með sér einvala lið aðstoðarhljóðfæraleikara. Áfram fékk eins og fyrri platan ágæta dóma s.s. í tímaritinu Samúel. Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.
Hálft í hvoru fylgdi plötunni eftir eins og vænta mátti og lék sveitin á um fimmtán tónleikum úti á landi á hálfs mánaðar tímabili auk þess að leika á höfuðborgarsvæðinu s.s. í framhaldsskólunum – á tónleikum sínum lék sveitin ekki einvörðungu eigin lög heldur einnig annarra manna efni, þannig má t.d. nefna bæði Bítlana og Megas svo dæmi séu nefnd. Þá fór sveitin einnig utan til Noregs í desember og þar var Bergþóra Árnadóttir einnig með í för sem sólóisti og þannig komu þau einnig fram á sameiginlegum tónleikum á Hótel Borg rétt fyrir jólin, svo ekki hafði ágreiningurinn rist djúpt sem fyrr segir.

Hálft í hvoru
Sveitin hélt sínu striki á nýju ári 1984, starfaði með verkalýðsfélögunum úti á landi og hélt tónleika á vinnustöðum og m.a. lék sveitin í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum en Eyjar áttu síðar eftir að verða eins konar heimavöllur sveitarinnar, Gísli sem upphaflega kemur úr Vestmannaeyjum hafði kennt hinum sveitarmeðlimum nokkur Eyjalög og samstundis tókust ástir með Eyjamönnum og hljómsveitinni og átti hún eftir að leika þar margsinnis á næstu árum. Jafnframt léku þeir félagar mikið á höfuðborgarsvæðinu og má í því samhengi nefna bæði Hellinn og Gauk á Stöng.
Aðeins dró úr spilamennsku Hálfs í hvoru um haustið og í byrjun nýs árs 1985 auglýsti sveitin eftir bassaleikara en Örvar var þá að hætta í sveitinni, það vildi sveitinni til happs að Herdís Hallvarðsdóttir var þá nýhætt í Grýlunum en hún hafði þá fengið nóg af rokklíferninu og hafði jafnvel áhuga að fá tekjur fyrir að spila sem var eitthvað fátítt hjá Grýlunum. Hún var ráðin inn i hljómsveitina þrátt fyrir að Gísli flautuleikari væri á móti því að fá einhvern rokkbassaleikara í bandið en sú mótspyrna var að mestu horfin úr Gísla þegar þau Herdís giftu sig síðsumars það sama ár. Nokkuð rót var á hljómsveitinni þetta árið (1985), Aðalsteinn Ásberg hafði þá einnig hætt og um tíma var sveitin auglýst sem tríó þar sem margs konar önnur verkefni biðu sveitarmeðlima, Gísli gaf t.a.m. út sólóplötu þetta sama ár og lék sveitin ekki alveg eins mikið og hún hafði gert árin á undan. Sveitin lék þó nokkuð í Reykjavík og Vestmannaeyjum og um verslunarmannahelgina var sveitin meðal skemmtikrafta í Húsafelli þar sem Hallbjörn Hjartarson kom fram með henni. Um haustið fór Hálft í hvoru svo til Bretlands, þar sem sveitin kom fram á Íslandskynningu í London en þar tók fegurðardrottning Íslands Hólmfríður Karlsdóttir (Hófí) lagið með sveitinni þegar hún söng Á Sprengisandi.
Um haustið hóf Hálft í hvoru að undirbúa útgáfu næstu plötu og var hún unnin um veturinn, hins vegar kom nokkurt bakslag í þá vinnu í upphafi árs 1986 þegar Eyjólfur hætti óvænt í sveitinni þannig að lögin sem hann hafði lagt til í upptökurnar voru tekin út, Eyjólfur birtist svo nokkrum vikum síðar í nýrri hljómsveit, Bítlavinafélaginu.
Sveitin spilaði ekki mikið framan af ári og var líklega um tíma tríó þeirra Gísla, Inga Gunnars og Herdísar en Guðmundur Benediktsson (Mánar, Brimkló o.fl.) kom svo inn í sveitina og var orðinn fastur liðsmaður þegar hún fór til Kaupmannahafnar um vorið þar sem Hófí söng aftur með henni. Reyndar hafði nafn sveitarinnar verið dregið inn í sérstaka umræðu fyrr um vorið þegar undankeppni fyrstu Eurovision-keppninnar stóð yfir en þá hafði komið í ljós að eitt laganna, Ég lifi í draumi (e. Eyjólf) hafði verið flutt opinberlega af Hálfu í hvoru árið á undan og flutt í útvarpi og það samræmdist ekki lögum um keppnina – laginu var þó ekki vísað úr keppninni. Reyndar kom upp annað mál um svipað leyti, Aðalsteinn Ásberg gerði þá kröfu um einkarétt á nafni hljómsveitarinnar en það var upphaflega frá honum komið, ekki urðu þó nein frekari deilur um það og sveitin hélt nafni sínu.
Guðmundur hafði komið við sögu á upptökum á nýju plötunni og það hafði einnig Hannes Jón Hannesson (Brimkló, Fiðrildi o.fl.) gert en hann gerðist svo liðsmaður sveitarinnar í stað Inga Gunnars sem nú var einnig hættur en Gísli var þá einn eftir af upprunalegri skipan hennar. Þegar platan kom út um vorið undir nafninu Götumynd var tónlistin nú orðið meira í ætt við venjulegt popp heldur en vísnapopp, en hlaut engu að síður ágætar viðtökur gagnrýnenda – ágæta í DV, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum og þokkalega í Helgarpóstinum. Hálft í hvoru lék í kjölfarið víða um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina um sumarið til að kynna plötuna og um leið að fagna 5 ára afmæli hennar, og m.a. fóru þau í hálfs mánaðar túr um landið til þess þar sem þau fengu víðast hvar prýðilega aðsókn nema á Húsavík þar sem aðeins sjö hræður mættu, litlu fleiri en skipuðu sveitina sem þó var ekki ýkja fjölmenn. Fáeinum vikum síðar lék sveitin hins vegar fyrir tugi þúsunda gesta á stóri tónlistarhátíð í Stuttgart í Þýskalandi.

Hálft í hvoru í miðjuopnu Vikunnar
Hálft í hvoru lék nokkuð fram að áramótum 1986-87 en fór að því loknu í nokkurra mánaða pásu og lék svo fremur stopult um sumarið 1987, reyndar í nokkur skipti í Vestmannaeyjum og var þar auglýst sem „gamla Hálft í hvoru“ – í upprunalegri mynd sinni, þ.e. Gísli, Ingi Gunnar, Eyjólfur og Örvar. Stór hluti sveitarinnar hafði þá um það leyti stofnað hljómsveitina Islandicu (Gísli, Herdís, Ingi Gunnar og Guðmundur Benediktsson) svo Hálft í hvoru hafði orðið útundan, Herdís var aukinheldur að vinna að sinni fyrstu sólóplötu og Eyjólfur einnig kominn með sólóferil. Það var því ekkert undarlegt að sveitin yrði að víkja fyrir öðrum verkefnum og í febrúar 1988 var svo gefið út að sveitin væri formlega hætt störfum eftir stóra tónleikahátíð sem þeir félagar léku á í Svíþjóð, þar kom sænski píanóleikarinn Arne Forsén fram með sveitinni.
Hálft í hvoru hætti þó aldrei alveg þótt formleg „dánartilkynning“ hefði verið gefin út, hins vegar leið gjarnan nokkur tími milli þess sem sveitin kom fram – stundum nokkrir mánuðir en sveitin lék þá eitthvað á hverju ári, t.d. á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1989, í Vestmannaeyjum þar sem sveitin átti sinn trygga aðdáendahóp og stöku sinnum á Gauki á Stöng. Það var svo 1993 sem nokkur kippur kom aftur í starfsemi sveitarinnar, þeir Gísli, Eyjólfur, Ingi Gunnar og Örvar hófu þá að spila nokkuð víða og ört, hér má nefna þorrablót í New York, Gauk á Stöng og svo auðvitað Eyjar en það sumar (1993) átti sveitin þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja, Alltaf á Heimaey og lék þar með á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina – lagið kom hins vegar ekki út á plötu fyrr en á safnplötunni Í dalnum: Eyjalögin sívinsælu, árið 1999. Í kjölfarið lék sveitin töluvert á dansleikjum, t.d. á sveitaballi í Hvoli sem var reyndar ekki algengt hjá sveitinni þar sem hún lék mestmegnis á stöðum með vínveitingaleyfi en það er þó til marks um það að Hálft í hvoru var nú komin langt frá vísnatónlistinni sem hún átti upphaflega rætur að rekja til, segja má að sveitin hafi verið með það sem kalla mætti almennt ballprógramm. Hálft í hvoru var á þessum árum skipuð þeim Gísla, Eyjólfi, Inga Gunnari og Örvari en ekki leið á löngu þar til Gísli yfirgaf sveitina og í hans stað kom trommuleikari í fyrsta sinn inn í sveitina, Bergsteinn Björgúlfsson og þar með hafði hún tekið skrefið til fulls í ballspilamennskuna. Sveitin lék nú mest á stöðum eins og Gauki á Stöng og svo Kaffi Reykjavík sem varð um skeið eins konar heimavöllur hennar á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt lá leiðin áfram oft til Eyja enda var sveitin orðin hálfgerð Eyjasveit þrátt fyrir að Gísli væri horfinn á braut, þannig lék sveitin í nokkur skipti á Þjóðhátíð Eyjamanna.
Gestasöngvarar komu stundum fram með Hálfu í hvoru, hér má t.d. nefna Kristjönu Ólafsdóttur og Stefán Hilmarsson en þeir Stefán og Eyfi (Eyjólfur) voru auðvitað þekkt tvíeyki eftir Eurovision keppnina 1991. Sveitin sendi ekki frá sér nýtt efni um margra ára skeið eftir að Götumynd kom út árið 1986 en árið 1995 áttu þeir félagar reyndar lag á safnplötunni Pottþétt 2, það fór þó ekki hátt. Þremur árum síðar kom hins vegar út safnplata með Hálfu í hvoru, Horft um öxl en hún hafði að geyma lög frá árunum 1981-83 og höfðu komið út áður.
Það var svo árið 2002 að Hálft í hvoru tók sér nýtt nafn, Íslands eina von, og þar með lýkur í raun sögu sveitarinnar. Sveitin starfaði um nokkurra ára skeið undir því nafni en það er eftirtektarvert að Eyjamenn héldu áfram að kalla hana Hálft í hvoru og tengdu hana því áfram við það nafn, þannig voru umfjallanir og auglýsingar í vestmannaeyskum fjölmiðlum allt til ársins 2007.
Hálft í hvoru var þó endurvakin undir því nafni árið 2013 þegar sveitin kom fram á minningartónleikum um Bergþóru Árnadóttur (d. 2007) en hún var þá skipuð þeim Gísla, Eyjólfi, Inga Gunnari og Örvari, sveitin lék þá í fáein skipti og svo aftur árin 2019 og 2020 þegar hún lék á goslokahátíð í Vestmannaeyjum og átti reyndar svokallað goslokalag fyrrnefnda árið, Við ætlum út í Eyjar. Hálft í hvoru er þó líklegast hætt störfum – þar til annað kemur í ljós.














































