Heimsreisa Höllu [tónlistarviðburður] (1998-2008)

Tríó Björns Thoroddsen og Egill Ólafsson

Heimsreisa Höllu var tónlistardagskrá sem var í höndum Egils Ólafssonar og Tríós Björns Thoroddsen, sem skipað var auk Björns sem lék á gítar þeim Ásgeiri Óskarssyni trommuleikara og Gunnari Hrafnssyni bassaleikara en Egill og tríóið höfðu þá starfað saman frá árinu 1993.

Dagskráin var upphaflega sett saman fyrir tónlistarverkefnið Tónlist fyrir alla sem sett var á laggirnar í upphafi árs 1998 en þeir félagar fóru þá í grunnskóla Kópavogs með hana og síðan víðar um höfuðborgarsvæðið. Heimsreisa Höllu var byggð á þjóðlaginu Ljósið kemur langt og mjótt, og gekk út á að sýna fram á hvernig sama lagið gat hljómað með ólíkum hætti eftir straumum og stefnum tónlistarinnar og tímabilum hennar, og tóku nemendur virkan þátt í flutningi á tónlistinni bæði í söng og hljóðfæraleik.

Heimsreisa Höllu þótti vel  heppnað verkefni og í kjölfarið fóru þeir félagar víðar um land með það þetta ár og einnig erlendis, það hélt áfram árið eftir og aldamótaárið 2000 var það orðið að hluta dagskrár menningarhátíðarinnar Reykjavík – menningarborg Evrópu árið 2000. Þeir héldu því áfram að kynna landsmönnum og öðrum Evrópubúum Höllu, og fóru þá einnig til Grænlands og Bandaríkjanna.

Á næstu árum var öðru hverju farið með dagskrána í grunnskóla landsins í nafni Tónlistar fyrir alla, árið 2001 var til að mynda farið til Vestfjarða, 2003 til Norðurlands vestra og 2008 um Vesturland en þá var Örn Árnason leikari og söngvari í stað Egils.